Erlent

Danskt sjúkra­hús kært til lög­reglu vegna til­rauna á ungum drengjum

Kjartan Kjartansson skrifar
Ríkissjúkrahúsið í Kaupmannahöfn hefur ekki áður verið kært til lögreglu vegna rannsóknar þar.
Ríkissjúkrahúsið í Kaupmannahöfn hefur ekki áður verið kært til lögreglu vegna rannsóknar þar. Vísir/EPA

Rannsóknasiðanefnd Danmerkur hefur kært ríkissjúkrahúsið í Kaupmannahöfn og lækni vegna rannsóknar á ungum drengjum. Upp komst um ágalla á rannsókninni þegar þurfti að skrá hana í nýtt samevrópskt kerfi.

Rannsóknin, sem var gerð á barnaskurðstofu ríkissjúkrahússins, fólst í tilraunum með hvort að nýtt lyf gæti aukið framtíðarfrjósemi ungra drengja sem hefðu gengist undir skurðaðgerð vegna eistna sem hafa ekki gengið niður. Fimmtán börn yngri en tveggja ára tóku þátt í rannsókninni sem hófst í maí 2022, að sögn danska ríkisútvarpsins.

Danska lyfjastofnunin stöðvaði rannsóknina eftir að hún taldi 28 brot á reglum hafa átt sér stað. Börnum hefði þannig verið gefin saltvatnslausn sem lyfleysa sem var framleidd án tilskilinna leyfa og tilraunalyf sem var útrunnið.

Malene Fischer, rannsóknastjóri ríkissjúkrahússins, segir að börnin í rannsókninni hafi fengið nefsprey sem innihélt ýmist tilraunalyfið eða saltvatnslausn. Foreldrar áttu að gefa börnum sínum spreyið á hverjum degi í nokkrar vikur.

Engum meint af

Yfirlæknir sem starfaði við ríkissjúkrahúsið stýrði rannsókninni. Rannsóknasiðanefndin segir að hann starfi ekki þar lengur. Hann var einnig kærður til lögreglu. Nefndin segir að einu sinni áður hafi aðstandendur rannsóknar verið kærðir til lögreglu. Það var árið 2020 en nefndin gefur ekki upp út á hvað hún gekk.

Fischer segist ekki kunnugt um að sjúkrahúsið hafi áður verið kært vegna heilbrigðisrannsóknar. Sjúkrahúsið taki málið alvarlega og hafi beðið börnin og foreldrana sem tóku þátt í rannsókninni afsökunar. 

Engu að síður benda gögn sjúkrahússins ekki til þess að nokkru barnanna hafi orðið meint af tilrauninni. Þeim verða þó greiddar bætur.

Ríkissjúkrahúsið fór yfir allar þær 65 lyfjatilraunir sem standa þar yfir en fann enga ágalla á þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×