Erlent

Fráleitt að flóttamaður verði forseti Katalóníu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Forsætisráðherrann er ekki par hrifinn af Puigdemont.
Forsætisráðherrann er ekki par hrifinn af Puigdemont. Nordicphotos/AFP
Carles Puigdemont, fyrrverandi forseti héraðsstjórnar Katalóníu, má ekki verða forseti héraðsins aftur nú, eftir að aðskilnaðarsinnar héldu meirihluta sínum í héraðsþingkosningum í desember. Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, sagði í gær að ef hann yrði útnefndur héraðsforseti myndu Spánverjar halda áfram að fara með stjórnina í héraðinu.

Spánverjar hafa stýrt Katalóníu frá því síðasta haust þegar héraðið var svipt sjálfsstjórn eftir sjálfstæðisyfirlýsingu þess. Sjálfur er Puigdemont í útlegð í Brussel en ráðherrar héraðsstjórnar hans hafa verið ákærðir fyrir uppreisn.

Katalónska héraðsþingið velur sér forseta á næstu vikum og hefur Puigdemont þótt einna líklegastur til að verða fyrir valinu. Jafnvel þótt hann þyrfti að stýra frá Brussel. Óljóst er hvort yfirlýsing Rajoy muni koma til með að setja strik í reikninginn.

„Það er algjörlega fráleitt að einhver vilji vera forseti héraðsstjórnar Katalóníu þegar viðkomandi er flóttamaður í Brussel. Þetta er bara spurning um almenna skynsemi,“ sagði Rajoy í ræðu sinni sem haldin var í höfuðstöðvum Þjóðarflokksins í Madrid.

Þá sagði Rajoy enn fremur að ef Puigdemont reyndi að vera viðstaddur þingfund í gegnum Skype eða sambærilegt forrit myndu spænsk yfirvöld kæra það til dómstóla.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×