Sigtryggur Arnar Björnsson var öðrum fremur maðurinn á bak við sigur Tindastóls á Haukum í undanúrslitaleik Maltbikars karla í Laugardalshöllinni í gærkvöldi.
Sigtryggur Arnar skoraði sex þrista í leiknum og endaði með 35 stig eða með meira en tvöfalt fleiri stig en næststigahæsti leikmaður Tindastóls.
Næstur Sigtryggi Arnari í stigaskori í liði Tindastóls var Brandon Garrett með 17 stig. Sigtryggur Arnar hitti alls úr 11 af 20 skotum sínum og 7 af 9 vítum. Hann var einnig með 11 fráköst og 3 stoðsendingar.
Sigtryggur Arnar var þar með fyrsti Íslendingurinn í tæp 24 ár sem nær að skora 35 stig í úrslitum bikarsins á fjölum Laugardalshallar.
Því hafði enginn náð síðan að Teitur Örlygsson skoraði 38 stig fyrir Njarðvík á móti Keflavík í bikarúrslitaleiknum árið 1994.
Stigametið í bikarúrslitaleik á Valur Ingimundarson sem skoraði 46 stig fyrir Njarðvík í bikaúrslitaleiknum fyrir 30 árum síðan.
Flest stig Íslendings í úrsltum bikarsins í Laugardalshöll 1976-2018:
46 - Valur Ingimundarson fyrir Njarðvík á móti KR 1988 [Bikarúrslit]
38 - Teitur Örlygsson fyrir Njarðvík á móti Keflavík 1994 [Bikarúrslit]
35 - Guðni Ólafur Guðnason fyrir KR á móti Njarðvík 1988 [Bikarúrslit]
35 - Sigtryggur Arnar Björnsson fyrir Tindastól á móti Haukum 2018 [Undanúrslit]
30 - Jón Sigurðsson fyrir Ármann á móti Njarðvík 1976 [Bikarúrslit]
30 - Sigurður Þorvaldsson fyrir Snæfell á móti Fjölni 2008 [Bikarúrslit]
29 - Bárður Eyþórsson fyrir Snæfell á móti Keflavík 1993 [Bikarúrslit]
29 - Jón Arnór Stefánsson fyrir KR á móti Stjörnunni 2009 [Bikarúrslit]
28 - Ívar Webster fyrir Hauka á móti Njarðvík 1986 [Bikarúrslit]
27 - Pétur Guðmundsson fyrir ÍR á móti Val 1983 [Bikarúrslit]
27 - Damon Johnson fyrir Keflavík á móti Snæfelli 2003 [Bikarúrslit]

