Innlent

Hálkan heldur áfram að hrella landann

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það er um að gera að fara varlega í umferðinni vegna hálkunnar.
Það er um að gera að fara varlega í umferðinni vegna hálkunnar. VÍSIR/STEFÁN
Hálkan mun líklega halda áfram að hrella landann að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands í morgun. Það er því um að gera að fara varlega í umferðinni en í hugleiðingum veðurfræðings segir að í dag verði hægir suðvestan vindar og él á vestanverðu landinu en léttskýjað eystra.

Í kvöld og nótt er síðan von á suðaustanátt og dálítilli snjókomu eða slyddu í flestum landshlutum.

„Yfirleitt frostlaust við sjávarsíðuna, en frost 1 til 12 stig inn til landsins. Hálkan heldur því líklega áfram að hrella landann enn um sinn og því um að gera að fara varlega í umferðinni,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings en veðurhorfur í dag og næstu daga eru þessar:

Suðvestan og vestan 3-10 m/s og él á vestanverðu landinu, en yfirleitt léttskýjað eystra. Snýst í suðaustan 5-10 í kvöld og rigning eða slydda SV-til í nótt.

Austlæg átt á morgun, 8-13 og víða dálítil snjókoma eða slydda með köflum, en úrkomulítið á V-landi. Norðlægari með kvöldinu og rofar til fyrir sunnan. Víða frostlaust við sjávarsíðuna, en frost annars 1 til 12 stig, kaldast NA-til.

Á þriðjudag:

Austlæg átt, 8-13 m/s og snjókoma eða slydda með köflum, en bjartviðri N-lands. Vaxandi norðlæg átt og él á annesjum fyrir norðan um kvöldið, en annars úrkomulítið. Frostlaust syðst, en annars frost, allt að 12 stigum fyrir norðan.

Á miðvikudag:

Norðan 8-15 m/s, hvassast á Austfjörðum. Él eða snjókoma á N-verðu landinu, en bjartviðri sunnan heiða. Frost 0 til 8 stig, minnst syðst.

Á fimmtudag:

Norðvestan 5-10 m/s og dálítil él NA-lands, en annars hægari, bjartviðri og talsvert frost. Vaxandi austanátt og þykknar upp síðdegis, hvassviðri eða stormur með snjókomu eða slyddu um kvöldið og hlýnar í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×