Innlent

Flughált sums staðar á landinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Kalt er í veðri víðast á landinu og hált á vegum. Myndin er úr safni.
Kalt er í veðri víðast á landinu og hált á vegum. Myndin er úr safni. Vísir/GVA
Hálka er á vegum víða um land í dag og sums staðar snjóþekja. Vegagerðin varar við því að flughált geti verið á útvegum á Suður- og Suðvesturlandi, í Borgarfirði og víða á Norður- og Austurlandi. Spáð er frostlausu veðri við suður- og vesturströndina í dag en frosti annars staðar.

Á Suður- og Suðvesturlandi eru hálkublettir víðast hvar, samkvæmt upplýsingum á vef Vegagerðinnar. Sums staðar er þó sögð meiri hálka, einkum á útvegum og raunar flughált meðal annars á kafla á Suðurstrandavegi. Snjóþekja og krapi er í uppsveitum en verið er að hreinsa vegi þar.

Á Vesturlandi og Vestfjörðum er hálka á flestum vegum og sumstaðar snjóþekja. Flughált er á köflum í Borgarfirði. Snjóþekja og éljagangur er á flestum fjallvegum. Flughált er einnig víða á Vestfjörðum.

Á Norður- og Austurlandi er víðast hvar hált og jafnvel flughált á köflum. Hálka og hálkublettir eru með suðausturströndinni.

Veðurstofan spáir hægri suðvestanátt og dálítilli slyddu- eða snjóéljum sunnan- og vestanlands í dag, en annars bjartviðri. Svipað veður á að vera á morgun en smám saman á að kólna í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×