Innlent

Námsmenn með tekjur langt undir tekjuviðmiðun og hafa beðið breytinga í átta ár

Heimir Már Pétursson skrifar
Tveir þingmenn þrýstu á menntamálaráðherra á Alþingi í morgun að skipa sem fyrst í stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna og marka stefnu varðandi framfærslu þeirra sem væri undir tekjuviðmiðun velferðarráðuneytisins í dag. Þá hafa þingmenn fimm flokka lagt fram þingsályktun um sálfræðiþjónustu í háskólum.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar er fyrsti flutningsmaður þingsályktunar þingmanna í Viðreisn, Samfylkingu, Vinstri grænum, Pírötum og Flokki fólksins um að auka aðgengi að sálfræðiþjónustu fyrir háskólanema í opinberum háskólum frá og með skólaárinu 2018–2019. Jafnframt leiti menntamálaráðherra leiða til að efla sálfræðiþjónustu í öðrum háskólum en opinberum. Hvort tveggja verði gert í samráði við háskólana sjálfa, Sálfræðingafélag Íslands og heilbrigðisráðherra. Í fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun vakti Þorgerður Katrín líka athygli á bágri stöðu og óvissu sem stúdentar byggju við varðandi framfærslu sína.

„Nú er það svo að stúdentar hafa beðið í allnokkurn tíma, eiginlega nokkuð mikið langan tíma, eftir kjarabótum og að tekin sé ákvörðun um raunverulegt framtíðar skipulag á lánasjóðnum. Það hafa verið þrjár endurskoðunarnefndir í gangi og sú fjórða er nú á leiðinni,” sagði Þorgerður Katrín á Alþingi í morgun.

Frumvarpsdrög hafi verið kynnt um lánamál stúdenta í tíð Katrínar Jakobsdóttur og Illuga Gunnarssonar í menntamálaráðuneytinu með ólíkum áherslum,  sem hvorug hafi náð fram að ganga. Nú boði menntamálaráðherra enn eina stefnumótunina.

„Allan tímann sitja stúdentarnir sjálfir á hakanum. Jafnvel sumir þeirra sem voru að hefja nám þegar endurskoðunarvinnan hófst eru að ljúka doktorsprófi í dag. Þetta langur er tíminn,” sagði Þorgerður Katrín. Hún ýtti eftir því að skipað yrði í stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna svo hægt væri að marka stefnuna í málefnum stúdenta.

Menntamálaráðherra lofar aðgerðum og betrumbótum

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra sagði rétt að endurskoðun á lögum um LÍN hefði tekið allt of langan tíma eða átta ár. Hún vildi vanda til verka við skipan í stjórn LÍN.

„Háttvirtur þingmaður þarf ekki að hafa áhyggjur af því að þessi ráðherra verði aðgerðarlaus hvað þetta varðar. Ég hlakka líka til að vinna með háttvirtum þingmanni að framgangi þessara mála. Ég vil líka segja að að ég er mjög ánægð með þá þingsályktunartillögu sem háttvirtur þingmaður boðar. Þetta er í anda stjórnarsáttmálans. Við viljum bæta sálfræðiþjónustu, ekki bara á háskólastigi heldur líka á framhaldsskólastigi,” sagði Lilja.

Guðmundur Andri Thorsson þingmaður Samfylkingarinnar spurði menntamálaráðherra einnig út í málefni stúdenta. Þau snérust ekki um gamaldags pólitík heldur líf og kjör ungra fjölskyldna í landinu.

„Mig langar að heyra skoðun hæstvirts ráðherra á framfærslunni. Hvort henni þyki það forsvaranlegt að námsmenn lifi á 177 þúsund krónum áður en skerðingar hefjast. Í því sambandi er rétt að rifja upp að frítekjumark námsmanna hefur ekki hækkað síðan árið 2014," sagði Guðmundur Andri. Þetta væri langt undir tekjuviðmiðun velferðarráðuneytisins. Þá byggju aðeins um 9 prósent námsmanna við Háskóla Íslands á stúdentagörðum.

„Þá er það að sjálfsögðu markmið þessarar ríkisstjórnar að bæta kjör íslenskra námsmanna og styrkja alla umgjörðina í kringum það. Það er auðvitað stórmerkilegt að löggjafinn hafi ekki náð að klára endurskoðun á heilum átta árum. En ég get fullyrt að þessi ríkisstjórn mun klára þessa endurskoðun. Við munum líka vera í mikilli samvinnu við námsmannahreyfinguna,” sagði Lilja Alfreðsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×