Innlent

Finnst eðlilegt að Íslendingar skoði möguleikana á ræktun kannabis til útflutnings

Birgir Olgeirsson skrifar
Árni Þór Árnason
Árni Þór Árnason
Íslenskur fjárfestir er þeirrar skoðunar að Íslendingar ættu að íhuga möguleikana á ræktun kannabis til útflutnings. Rætt er við fjárfestinn í Bændablaðinu í dag en hann á sjálfur hlut í kanadísku kannabisframleiðslufyrirtæki.

Hann segir vatn og rafmagn þurfa til að framleiða kannabis og af því sé nóg á Íslandi. „Ég hef aðeins grennslast fyrir um gæða kannabis sem ræktað er ólöglega á Íslandi hjá lögreglunni og mér er sagt að framleiðslan sé mjög góð,“ segir Árni Þór Árnason fjárfestir í samtali við Bændablaðið.

Árni var áður framkvæmdastjóri Austurbakka hf sem var stærsta heildverslun landsins. Hann seldi hlut sinn í fyrirtækinu árið 2005 og var einn af stofnendum Agris sem reyndi fyrir sér í framleiðslu á skyri erlendis. Hann segir gríðarlegan vöxt í framleiðslu á kannabis í heiminum í dag, bæði í lækningaskyni og til einkanota.

Árni segir fjárfestingu sína í þremur kannabisframleiðslufyrirtækjum í Kanada hafa fjór- eða fimmfaldast á einu ári. Hann segist sjálfur ekki hafa áhuga á kannabis og ekki prófað það en fyrir hann sem fjárfesta er áhuginn mikill.

Hann segir íslenskan landbúnað í lægð og vill meina að ræktun á kannabis væri góð leið til að efla hann.

Honum finnst óeðlilegt ef menn skoða ekki þann möguleika alvarlega að rækta kannabis hér á landi og varan verði seld sem „Pure Icelandic“. Skattur yrði greiddur af hagnaðinum og gjaldeyristekjur myndu aukast.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×