Erlent

Góðgerðarsamtökin leyst upp eftir fréttir af grófri kynferðislegri áreitni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Kvöldverðurinn fór fram á einu glæsilegasta hóteli London, The Dorchester Hotel.
Kvöldverðurinn fór fram á einu glæsilegasta hóteli London, The Dorchester Hotel. vísir/Getty
Bresku góðgerðarsamtökin The President‘s Club verða leyst upp í kjölfar fréttar Financial Times þar sem fjallað var um grófa kynferðislega áreitni karla í garð kvenna sem ráðnar höfðu verið til að þjóna í góðgerðarkvöldverði samtakanna.

Þeim peningum sem eftir eru í sjóðum samtakanna, og var meðal annars safna á kvöldverðinum, verður ráðstafað í þágu barna að því er fram kemur í frétt BBC um málið.

Eins og greint var frá á Vísi fyrr í dag hefur umræddur góðgerðarkvöldverður verið fastur liður í viðburðadagatali þotuliðsins í London í 33 ár. Hingað til hefur þó lítið verið vitað um það sem fram hefur farið í þessum kvöldverði þar sem karlar eru einungis velkomnir þangað sem gestir og konur ráðnar til að þjóna þeim.

Í ítarlegri úttekt Financial Times um kvöldverðinn sem haldinn var í seinustu viku á Dorchester-hótelinu í London er því lýst að karlarnir, veislugestirnir, hafi káfað á þjónunum, þær fengið að heyra grófar athugasemdir og einhverjir gestanna gerðust svo kræfir að bjóða þeim upp á hótelherbergi.

Nokkrar sögðu að gestir hefðu farið með hendur undir pils þeirra og ein sagði að einn gestur hefði berað sig fyrir henni.

Frétt Financial Times hefur vakið gríðarlega athygli í Bretlandi en á meðal gesta í kvöldverðurinn var menntamálaráðherrann Nadhim Zahawi.

 

Samkvæmt BBC mun hann þurfa að útskýra fyrir ríkisstjórninni hvað fram fór í kvöldverðinum og hvað hann sá. Þá hefur Great Ormond Sreet-barnaspítalinn sem njóta átti góðs af söfnuninni á kvöldverði neitað að taka við peningum frá The Presidet‘s Club.

Leikarinn góðkunni og barnabókahöfundurinn David Walliams var kynnir á kvöldinu. Hann sagði á Twitter-síðu sinni í dag að hann hefði ekki orðið var við neitt af því sem lýst er í grein Financial Times en að honum byði við því sem þar væri greint frá.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×