Erlent

Ursula K Le Guin fallin frá

Atli Ísleifsson skrifar
Ursula K Le Guin var einna þekktust fyrir bækur sínar í Earthsea-bókaröðinni.
Ursula K Le Guin var einna þekktust fyrir bækur sínar í Earthsea-bókaröðinni. Vísir/Getty
Bandaríski vísindaskáldsagnahöfundurinn Ursula K Le Guin er látin, 88 ára að aldri. Frá þessu segir í yfirlýsingu frá fjölskyldu Le Guin.

Höfundurinn andaðist á heimili sínu í Portland í Oregon-ríki í gær eftir að hafa búið við slæma heilsu að undanförnu.

Í frétt BBC kemur fram að í bókum Le Guin voru drekar, galdrakarlar og geimskip oft í forgrunni þar sem tekist var á við vandamál tengd kynþáttum, kyni og stéttaskiptingu.

Le Guin skrifaði rúmlega tuttugu skáldsögur og á annað hundrað smásagna sem seldust í milljónum eintaka um allan heim.

Hún var einna þekktust fyrir bækur sínar í Earthsea-bókaröðinni og bókinni The Left Hand of Darkness frá árinu 1969.

Vann til fjölda verðlauna

Á ferli sínum vann hún til fjölda verðlauna, meðal annars Nebula og Húgó-verðlauna sem afhent eru fyrir vísindaskáldskap.

Fjölmargir hafa minnst Le Guin í kjölfar frétta af andláti hennar, meðal annars rithöfundurinn Stephen King sem segir hana hafa verið eina af þeim merkilegustu í heimi bókmennta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×