Innlent

Vagnar bíða á hafnarbakkanum í Kína

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó.
Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó.
„Þeir bíða á hafnarbakkanum í Kína og innflytjandinn er að vinna í að koma þeim um borð í skip,“ segir Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó bs., um rafmagnsvagnana sem keyptir hafa verið.

Líkt og Fréttablaðið hefur fjallað um voru keyptir níu rafmagnsvagnar í fyrra en afhending þeirra hefur dregist verulega eftir að prófanir leiddu í ljós að styrkja þyrfti burðarvirki vagnanna til að þola hraðahindranafjöld höfuðborgarsvæðisins. Upphaflega áttu fyrstu fjórir að koma í júní en nú styttist í þá. Hinir fimm eru væntanlegir um mitt ár.

„Ég veit ekki hvort það er satt en innflytjandinn grínaðist með að það væri svo mikill innflutningur vegna netverslunar frá Kína að hann fengi ekki pláss,“ segir Jóhannes.

Strætó mun verja 300 milljónum í kaup á nýjum vögnum í ár en margir vagnar núverandi flota eru komnir til ára sinna. Tveir elstu þeirra eru átján ára og eru 49 af þeim 91 vagni sem Strætó er með í rekstri eldri en tíu ára. Jóhannes Svavar segir flotann of gamlan og viðhaldskostnað nema tugum milljóna á ári.

Að lágmarki verða keyptir fimm vagnar í ár en örútboð mun leiða í ljós hvort hægt verði að kaupa fleiri. Eftir kaupin lýkur gildistíma rammasamnings um innkaup hjá Strætó en í borgarstjórn í vikunni var spurst fyrir um hvort keyptir yrðu vistvænni vagnar nú. Jóhannes segir að það verði stjórnar og eigenda að ákveða hvort aðeins verði leitað eftir tilboðum í vistvænni vagna í framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×