Innlent

Fær engin svör um vegabréfið: „Héðan er bara neyðarkall á íslensk stjórnvöld“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Sunna ásamt dóttur sinni á sjúkrahúsinu í Málaga.
Sunna ásamt dóttur sinni á sjúkrahúsinu í Málaga. Mynd/Unnur Birgisdóttir
„Þetta er bara eins og ég hélt, það er akkúrat engin umönnun í kringum Sunnu. Hún var að fá að vita það núna að hún er með þrjú brotin rifbein og þurfti að finna það út sjálf,“ segir Jón Kristinn Snæhólm, talsmaður fjölskyldu Sunnu Elviru Þorkelsdóttur.

Sunna hefur legið slösuð á spítala í Málaga í fjórtán daga. Ómögulegt hefur reynst að koma henni heim til Íslands þar sem lögreglan á Spáni hefur vegabréf hennar í sinni vörslu.

„Héðan er bara neyðarkall á íslensk stjórnvöld að nota allar sínar diplóm­atísku leiðir til að leysa þetta mál. Það er enginn hér til að annast hana nema foreldrar hennar, ég hef séð það sjálfur,“ segir Jón.

Páll Kristjánsson, lögmaður Sunnu, segist engin svör fá um það hvers vegna vegabréf hennar sé í vörslu lögreglunnar á Spáni. „Ég hef verið í sambandi við embætti Ríkislögreglustjóra en það virðist mest lítið vita um málið. Ég reikna með að það séu einhver samskipti milli lögreglunnar í ríkjunum tveimur en við fáum engar upplýsingar,“ segir Páll.

Stefnt var að því að Sunna kæmi til Íslands með sjúkraflugi í síðustu viku en það hefur ekki gengið eftir þar sem vegabréf hennar er í vörslu spænsku lögreglunnar. Eiginmaður Sunnu er í gæsluvarðhaldi grunaður um aðild að fíkniefnamáli.

„Mögulega er lögreglan að reyna að fiska einhverjar upplýsingar með þessu en hún veit ekkert um það mál. Hún er að einblína á að ná heilsu aftur,“ segir Páll. Hann segir að umbjóðandi hans hafi ekki stöðu sakbornings og sé ekki í farbanni. Því þyki honum málið hið undarlegasta.




Tengdar fréttir

Yfirvöld neita að afhenda Sunnu vegabréfið

Lögregluyfirvöld á Spáni neita að afhenda vegabréf Sunnu Elviru Þorkelsdóttur sem legið hefur alvarlega slösuð á spítala í Malaga í tvær vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×