Erlent

Segir eiginmann sinn hafa stolið úr sér nýra

Samúel Karl Ólason skrifar
„Hann varaði mig við því að ég mætti ekki segja nokkrum manni frá aðgerðinni.“
„Hann varaði mig við því að ég mætti ekki segja nokkrum manni frá aðgerðinni.“ Vísir/AFP
Indversk kona hefur sakað eiginmann sinn um að stela úr sér nýra og selja það. Eiginmaðurinn og bróðir hans hafa verið handteknir vegna málsins en þeir munu hafa stolið nýranu og selt það eftir að hafa kvartað yfir skorti á heimanmundi sem fylgdi konunni sem heitir Rita Sarkar.

Hún segir eiginmann sinn hafa beitt sig ofbeldi vegna heimanmundarins í mörg ár. Fyrir um tveimur árum hafi hún svo farið í aðgerða vegna botnlangakasts. Nú hafa rannsóknir sýnt fram á að annað nýra konunnar hefur verið fjarlægt.

„Eiginmaður minn fór með mig á einkastofu í Kolkata, þar sem hann og starfsmennirnir sögðu mér að heilsa mín myndi skána eftir að botnlanginn yrði fjarlægður í skurðaðgerð,“ er haft eftir Sarkar í frétt BBC.

„Hann varaði mig við því að ég mætti ekki segja nokkrum manni frá aðgerðinni.“

Löngu seinna fór hún til læknis vegna veikinda og sýndu myndatökur að annað nýra hennar hefði verið fjarlægt og það var svo staðfest í rannsókn.

„Þá skildi ég hvers vegna ég mátti engum segja frá aðgerðinni. Hann seldi nýra mitt vegna þess að fjölskylda mín gat ekki staðist kröfur hans um heimanmund.“

Lögreglan segir þrjá hafa verið ákærða fyrir manndrápstilraun og að pynta brúði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×