Enski boltinn

Dýrasti varnarmaður heims býst við bauli frá dýrlingunum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Virgil van Dijk skoraði sigurmarkið í fyrsta leik sínum fyrir Liverpool.
Virgil van Dijk skoraði sigurmarkið í fyrsta leik sínum fyrir Liverpool. Vísir/Getty
Virgil Van Dijk, leikmaður Liverpool, snýr aftur á sinn gamla heimavöll um helgina þegar að lærisveinar Jürgens Klopps mæta Southampton á velli heilagrar Maríu í ensku úrvalsdeildinni.

Dijk var seldur frá Southampton til Liverpool í desember fyrir 75 milljónir punda og varð hann um leið dýrasti varnarmaður sögunnar. Hann er ekkert alltof vinsæll í Southampton þessa dagana.

Hollenski miðvörðurinn lagði nefnilega inn félagaskiptabeiðni síðasta sumar til að fá í gegn sölu til Liverpool en endaði svo með að dúsa á suðurströndinni fram að jólum þangað til að forsvarsmenn Southampton gáfust loks upp og seldu hann.

Hann býst ekkert við rauðum dregli og kældu kampavíni þegar að Rauði herinn mætir til Southampton um helgina og á von á bauli úr stúkunni.

„Kannski verður baulað allan leikinn. Það er ekkert sem ég get gert í því,“ segir Van Dijk í viðtali við Sky Sports.

„Vitaskuld verður gaman að sjá fyrrverandi liðsfélaga mína og vini en aðallega mun þetta snúast um að vinna leikinn,“ segir Virgil van Dijk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×