Innlent

Vatns­leki úti um allt á höfuð­borgar­svæðinu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mikill vatnsleki er nú í Breiðholtsskóla.
Mikill vatnsleki er nú í Breiðholtsskóla. jóhann k. jóhannsson
Vatnslekar eru nú mjög víða á höfuðborgarsvæðinu og eru allar stöðvar slökkviliðsins í útköllum.

Slökkviliðið er nú í Hvammahverfinu í Hafnarfirði, í Húsahverfinu í Grafarvogi, Breiðholtsskóla, þar sem mikill leki er, og Seljahverfi þar sem mikill vatnsleki varð í einbýlishúsi.

Þegar Vísir náði tali af varðstjóra slökkviliðsins var síðan nýbúið að tilkynna vatnsleka í Breiðholtslaug en slökkviliðið var ekki komið á staðinn. Aðspurður hvort það þyrfti að kalla út bakvakt vegna allra þessara leka kvaðst hann vonast til að þurfa þess ekki.

Reykjavíkurborg og Veitur vinna með slökkviliðinu í þessum lekum.

Frá vettvangi í Breiðholtsskóla í morgun.JÓHANN K. JÓHANNSSON
Hlynur Höskuldsson, aðstoðarvarðstjóri hjá slökkviliðinu, var við störf í Breiðholtsskóla þegar fréttastofa náði tali af honum. Spurður út í aðstæður þegar slökkviliðið kom á vettvang sagði hann að 50 til 60 sentimetrar djúpt vatn hefði tekið á móti þeim.

„Það var niðurfall hérna sem hafði ekki við, það hafði stíflast svo fór að flæða inn þar sem klefarnir eru inn í íþróttahúsið og svona langleiðina inn í skóla,“ sagði Hlynur.

Spurður út í tjónið sagði Hlynur ekki vita það nákvæmlega.

„Þetta er mikið flísalagt og svoleiðis þannig ég held að þetta hafi sloppið svona að mestu,“ sagði Hlynur.

Slökkviliðið mætti í skólan upp úr klukkan átta og voru enn að nú rétt fyrir klukkan 11.

„Við erum búnir að vera með allan okkar dælingarbúnað í dælingu.“

Mikið álag hefur verið á slökkviliðinu vegna vatnselgs.

„Ég held að það séu allir bílar búnir að vera í notkun síðan í vaktaskiptum nánast og það bíða bara verkefni þannig að við verðum eitthvað fram eftir.“

Fréttin var uppfærð klukkan 11 með viðtali við Hlyn Höskuldsson.

50 til 60 sentimetrar djúpt vatn mætti slökkviliðsmönnum í þegar þeir komu á vettvang í Breiðholtsskóla í morgun.jóhann k. jóhannsson
Vatnsleki varð einnig í Breiðholtslaug.jóhann k. jóhannsson

Tengdar fréttir

Tilefni til að hreinsa frá niðurföllum

Tilefni er til þess að hreinsa frá niðurföllum vegna spár um mikla rigningu og hlýnandi veður á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Þetta sagði veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands við blaðamann í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×