Innlent

Heyrði fyrst af væntanlegri heimferð í fjölmiðlum

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Sunna Elvira liggur mikið slösuð á sjúkrahúsi í Malaga.
Sunna Elvira liggur mikið slösuð á sjúkrahúsi í Malaga. Vísir/Egill
Lögmaður Sunnu Elviru Þorkelsdóttur hefur hvorki heyrt frá íslenskum né spænskum yfirvöldum um það hvort farbanni yfir Sunnu verði aflétt. Engin ákvörðun hefur verið tekin um málið að sögn lögreglu en viðræður lögregluyfirvalda á Spáni og á Íslandi standa þó yfir.

Sunna Elvira liggur mikið slösuð á sjúkrahúsi í Malaga en hún er í farbanni vegna gruns um aðild að fíkniefnamáli sem teygir anga sína til beggja landa. Morgunblaðið greinir frá því í morgun að lögreglan hér á landi muni taka yfir rannsókn málsins og að samningar þess efnis hafi verið undirritaðir í gær. Í samtali við Bylgjuna segist Páll Kristjánsson, lögmaður Sunnu, fyrst hafa heyrt af málinu í fjölmiðlum.

„Það sem ég veit er í rauninni bara það sem ég hef lesið á öðrum fjölmiðlum og ég veit fyrir víst að Sunna sjálf heyrði fyrst af þessu í gegnum fjölmiðla, sá þetta í Morgunblaðinu í morgun. Ég veit í sjálfu sér ekki skriflega neins staðar skriflega staðfest, en mér skilst að samkvæmt áreiðanlegum heimildum sé þetta rétt, það sé búið að aflétta farbanninu að hún sé að koma heim,“ segir Páll í samtali við Bylgjuna.

Að því er segir í frétt Morgunblaðs er ráðgert að Sunna verði flutt heim til Íslands snemma í næstu viku, að því gefnu að öll formsatriði liggi fyrir. Í samtali við Vísi í morgun sagði Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn að engin ákvörðun hafi verið tekin um að lögregluyfirvöld á Íslandi taki við rannsókn málsins. Samtal standi þó yfir við lögregluyfirvöld á Spáni þess efnis. Lögmaður Sunnu kveðst aftur á móti vera bjartsýnn á að rétt reynist en hann ræddi við Sunnu í morgun.

„Hún var bara sátt og það er náttúrlega mikill léttir loksins jákvæðar fréttir en maður er náttúrlega búinn að læra það svo sem að taka öllu með fyrirvara og það er ekkert orðið fyrr en það er orðið þannig að baráttan heldur bara áfram,“ segir Páll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×