Viðskipti innlent

Segja botninum náð hjá Högum

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Finnur Árnason, forstjóri Haga.
Finnur Árnason, forstjóri Haga.
Hagfræðideild Landsbankans verðmetur gengi hlutabréfa í verslunarfyrirtækinu Högum á 43,4 krónur á hlut í nýju verðmati. Það er um sex prósentum yfir gengi bréfanna eftir lokun markaða í gær. Er mælst til þess að fjárfestar haldi bréfum sínum í félaginu.

Sérfræðingar Landsbankans spá 7,3 prósenta sölusamdrætti hjá félaginu á fjórða fjórðungi rekstrarársins, frá desember á síðasta ári til febrúar, en 3 prósenta tekjuvexti á næsta rekstrarári. Taka þeir fram að verðlagsþróun, lokanir verslana, gengisstyrking krónunnar og aukin samkeppni á markaði, meðal annars með tilkomu Costco, hafi haft mikil áhrif á sölu Haga undanfarna mánuði en að nú sé botninum náð.

Er það mat hagfræðideildarinnar að tekjur verslunarfyrirtækisins muni vaxa frá og með öðrum fjórðungi næsta rekstrarárs samhliða áframhaldandi vexti í einkaneyslu. Eins telur hún að áhrifin af Costco séu ekki lengur eins sterk og þau voru eftir opnun verslunarinnar.

Sérfræðingar Landsbankans gera ráð fyrir að EBITDA Haga – hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta – verði 4.375 milljónir á yfirstandandi rekstrarári og er það nokkuð yfir spá stjórnenda félagsins, sem hljóðar upp á 4.000 til 4.300 milljónir. Á næsta rekstrarári telja greinendurnir að kostnaðaraðhald og söluvöxtur muni skila 4 prósenta vexti í EBITDA.




Tengdar fréttir

Mæla með því að fjárfestar haldi bréfum í Högum

Hlutabréfagreinendur IFS meta verðmæti hlutabréfa í verslunarfyrirtækinu Högum á 37,6 krónur á hlut samkvæmt nýju verðmati sem Fréttablaðið hefur undir höndum. Er það um þremur prósentum lægra en gengi bréfanna stóð í eftir lokun markaða í gær. Er mælt með því að fjárfestar haldi bréfum sínum í félaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×