Aðilar vinnumarkaðarins hafa átt fjölda funda með stjórnvöldum á undanförnum vikum. Forsendunefnd ASÍ og Samtaka atvinnulífsins lauk hins vegar störfum í ágreiningi í dag þar sem ASÍ telur forsendur samninga brostnar að óbreyttu en atvinnurekendur telja svo ekki vera. Samningar á almennum markaði hafi verið leiðandi og kaupmáttur aukist í samræmi við markmið. Um 60 formenn aðildarfélaga ASÍ ákveða á morgun hvort samningum verði sagt upp.
Og nú þegar tæpur sólarhringur er þar til frestur til að segja upp kjarasamningum rennur út, komu forystumenn í Alþýðusambandinu til fundar með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í stjórnarráðshúsinu síðdegis. Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ sagði að loknum fundi að ríkisstjórnin hefði kynnt aðgerðir sem nú þegar sé til fé inni fyrir.

Þá sé ríkisstjórnin reiðubúin að hefja viðræður um breytingar á skatta- og bótakerfi með það að markmiði að bæta kjör þeirra verst settu og framlög til fræðslusjóða. Þetta geti vissulega létt undir í stöðunni.
„Auðvitað hefði ég viljað sjá hækkun á fæðingarorlofi og lengingu á tímabilinu. En við verðum að horfast í augu við að það þarf að setjast yfir það. Þar vantar iðgjald til að mæta því. En þarna er þá verið að koma til móts við okkur, bæði atvinnuleysistryggingasjóður og Ábyrgðasjóður launa hafa tekjur til að standa undir þessum ákvörðunum,“ segir Gylfi.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir ríkisstjórnina hafa ákveðið að hækka atvinnuleysisbætur og greiðslur úr Ábyrgðasjóði launa eins og ASÍ hafi sett á oddinn varðandi félagslegar umbætur. Um leið vilji ríkisstjórnin halda áfram góðum viðræðum við aðila vinnumarkaðarins sem m.a. hafi skilað breytingum á kjararáði.
„Og viljum eiga samtal við aðila vinnumarkaðarins um skattkerfisbreytingar og samspil skattkerfisins við bótakerfið. Barnabætur og húsnæðisbætur. Þannig að við getum betur tryggt stöðu lægri millitekjuhópa og lágtekjuhópa í samfélaginu,“ segir Katrín.
Ríkisstjórnin vilji ljúka þessum viðræðum á haustmánuðum þannig að hugsanlega megi leggja til breytingar við gerð fjárlaga næsta árs.

Framhaldið veltur hins vegar á formannafundi ASÍ á morgun. En forsætisráðherra segir ákvörðun ríkisstjórnarinnar um atvinnuleysisbætur og greiðslur úr tryggingarsjóði launa standa.
„Hin vegar liggur fyrir að samtal aðila vinnumarkaðarins verður með öðrum hætti ef hér verða vinnudeilur út árið.“
Þannig að það gæti orðið erfiðara?
„Ég held að það átti sig allir á því sem eru jarðtengdir,“ segir Katrín Jakobsdóttir.