Innlent

For­maður og vara­for­maður knatt­spyrnu­deildar Tinda­stóls segja af sér

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá Sauðárkróki en Tindastóll er íþróttafélagið í bænum.
Frá Sauðárkróki en Tindastóll er íþróttafélagið í bænum. vísir/gva
Þeir Bergmann Guðmundsson, formaður knattspyrnudeildar Tindastóls, og Guðjón Örn Jóhannsson, varaformaður deildarinnar, hafa sagt af sér í kjölfar umfjöllunar Stundarinnar um mál knattspyrnumanns hjá félaginu sem var tvívegis kærður fyrir nauðgun.

Greint var frá þessu á vef Feykis í gærkvöldi í yfirlýsingu frá knattspyrnudeild Tindastóls. Þar segir að með því að segja af sér axli þeir Bergmann og Guðjón ábyrgð á mistökum sem þeir hafa gert sem stjórnarmenn deildarinnar í máli mannsins sem Stundin fjallaði um sem og í máli Ragnars Þórs Gunnarssonar, leikmanns sem dæmdur var fyrir kynferðisbrot í fyrra en Tindastóll lýsti stuðningi við.

Begmann og Guðjón segja vonast til þess að með yfirlýsingunni skapist firður störf knattspyrnudeildarinnar og alls félagsins.

Í ítarlegri umfjöllun í nýjasta tölublaði Stundarinnar var rætt við tólf konur sem allar höfðu svipaða sögu að segja vinsælum fótboltastrák á Sauðárkróki sem er fyrrverandi starfsmaður knattspyrnudeildar Tindastóls. Kvörtuðu þær allar undan framgöngu mannsins, hvernig hann hefði farið yfir mörk þeirra kynferðislega og hvaða afleiðingar það hefði haft fyrir þær. Tvær þeirra kærðu manninn fyrir nauðgun en í báðum tilfellum var málið látið niður falla.

Yfirlýsinguna má sjá í heild sinni hér fyrir neðan og umfjöllun Stundarinnar í heild sinni hér:

Í kjölfar fréttar fjölmiðilsins, Stundarinnar er varða mál fyrrum starfsmanns deildarinnar og mjög alvarlegra ásakana í hans garð er ljóst að deildinni hafa orðið á mikil mistök. Mistök sem sennilega verður aldrei hægt að bæta fyrir.

Við viljum byrja á að taka heils hugar undir orð Aðalstjórnar Ungmennafélags Tindastóls sem sagði m.a. í yfirlýsingu sinni frá því í 25. febrúar 2018, orðrétt: „...Kemur þessi frétt í kjölfar #MeToo umræðunnar þar sem konur í fjölmörgum greinum stigu fram og sögðu frá sinni reynslu af kynferðislegri áreitni, kynferðislegu ofbeldi, þöggun og lítilsvirðingu. Konur í íþróttum voru þar á meðal og áttu sumar af þeim sögum sem nístu hjartað hvað mest. Þessar frásagnir kvennanna í Stundinni gerðu það einnig.

Það er mikilvægt að íþróttahreyfingin í heild sinni hlusti á þessar raddir þolenda og aðstandenda þeirra, læri af þeim og bregðist við af fullum þunga. Ábyrgð stjórnenda, formanna, forsvarsmanna og þjálfara er þar mikil.

Stjórnendur Ungmennafélagsins Tindastóls vilja því sérstaklega taka fram að félagið stendur með þolendum. Við tökum ábyrgð okkar alvarlega og við tökum málstað þolenda alvarlega. Kynferðislegt ofbeldi, kynferðisleg áreitni, einelti eða annað ofbeldi verður ekki undir neinum kringumstæðum liðið í starfi Ungmennafélagsins Tindastóls...“

Við þetta viljum við bæta og lýsa því hér með formlega yfir að deildinni urðu á stór mistök í maí á síðasta ári með stuðningsyfirlýsingu sinni við Ragnar Þór Gunnarsson, þáverandi leikmann liðsins, sem dæmdur var fyrir kynferðisbrot. Sú yfirlýsing átti ekki rétt á sér og þykir okkur leitt að hafa ekki staðið með okkar fólki, hafa valdið því vonbrigðum og þolendum óþarfa sársauka.

Hvað varðar mál fyrrum starfsmanns okkar sem fjallað er um í Stundinni síðastliðna helgi, en þar koma fram 12 stúlkur og segja sína sögu um samskipti við manninn, er ljóst að deildinni urðu á óafsakanleg mistök við ráðningu hans í barna- og unglingastarf félagsins.

Maðurinn er ekki dæmdur fyrir nein brot, en slíkt afsakar ekki í þessu tilviki að við gerðum okkur ekki á neinn hátt grein fyrir því hversu miklum vonbrigðum við vorum að valda félagsmönnum okkar og þeim þolendum sem hafa nú stigið fram og sagt sögu sína.

Því miður getum við ekki breytt því sem liðið er eða hvað þá tekið til baka þær ákvarðanir sem hafa verið teknar í fortíðinni. En við vonum að við getum á einhvern hátt sýnt sársauka þolenda virðingu með því að biðjast afsökunar á ákvörðunum okkar og reyna að leggja okkar af mörkum til þess að félagið verði vel í stakk búið til taka RÉTT á málum í framtíðinni. Málum eins og hafa komið upp í umræðuna í kjölfar #MeToo byltingarinnar sem og öðrum málum sem ekki eiga heima í heimi íþróttanna, frekar en annarsstaðar. Eins og fram kemur í yfirlýsingum Ungmennasambands Skagafjarðar (UMSS) og Aðalstjórnar Ungmennafélags Tindastóls hefur vinna staðið yfir í vetur við að skrifa siðareglur fyrir félagið og er það vel. Til að taka ábyrgð á mistökum okkar segjum við okkur frá störfum okkar fyrir félagið. Það er okkar von að með þessari yfirlýsingu skapist friður um störf knattspyrnudeildar Tindastóls og félagsins alls. Áfram Tindastóll

Virðingarfyllst, Bergmann Guðmundsson og Guðjón Örn Jóhannsson


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×