Erlent

Sléttbakar í hættu á útrýmingu í Norður-Atlantshafi

Kjartan Kjartansson skrifar
Tvær tegundir sléttbaka er að finna á norðurhveli jarðar og ein á suðurhveli.
Tvær tegundir sléttbaka er að finna á norðurhveli jarðar og ein á suðurhveli. Vísir/Getty
Útlit er fyrir að engir sléttbakskálfar komi undir á fengitími hvalanna nú. Sérfræðingar vara við því að stofninn gæti horfið algerlega á næstu tuttugu árunum ef menn grípa ekki inn í.

The Guardian greinir frá því að vísindamenn sem fylgjast með hvölum við austurströnd Bandaríkjanna hafi ekki séð neina kálfa í vetur. Það kemur í kjölfar metfjölda í afföllum í stofninum í fyrra. Vísindamennirnir telja að aðeins 430 Norður-Atlantshafssléttbakar gætu verið eftir í heiminum og aðeins um hundrað kvendýr.

Hvölunum stendur ógn af umsvifum manna á ýmsan hátt. Þeir drepast meðal annars þegar þeir festast í reipum humarveiðimanna. Rannsóknir benda til þess að 82% ótímabærra dauðsfalla sléttbaka séu af völdum veiðarfæra manna. Þá eru hvalirnir sagðir eiga erfiðara með að afla sér fæðu í hlýnandi hafinu.

Mark Baumgartner, sjávarvistfræðingur við Woods Hole-haffræðistofnunina í Massachusetts í Bandaríkjunum, varar við því að sléttbakarnir gætu horfið með öllu fyrir árið 2040. Hann vill að bandarísk stjórnvöld grípi til aðgerða og setji reglur um veiðfarfæri.

Hvaladauði er sagður hafa aukist verulega eftir að humarveiði menn byrjuðu að nota sterkari reipi fyrir nokkrum árum. Hvalir sem festast í þeim eigi nú mun erfiðara með að leysa sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×