Innlent

Skagfirðingar bægja atvinnukreppu frá hnignandi Hofsósi með byggðakvóta

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Áföll hafa verið í atvinnulífi á Hofsósi
Áföll hafa verið í atvinnulífi á Hofsósi VÍSIR/STEFÁN
„Síðustu ár hafa verið erfið fyrir byggð á Hofsósi. Þjónusta hefur dregist saman og atvinnutækifærum fækkað,“ segir í greinargerð sem lögð var fyrir byggðaráð Skagafjarðar í síðustu viku um leið og samþykkt var að hleypa af stað atvinnuþróunarátaki á staðnum. Markmiðið er að fjölga atvinnutækifærum og efla byggð á Hofsósi.

„Jafnframt mun sveitarfélagið beita sér fyrir því að úthlutað verði sérstökum byggðakvóta til Hofsóss til að tryggja framtíð smábátaútgerðar á staðnum sem nú stendur höllum fæti og frekara svigrúm verði veitt til sjóstangveiði á Skagafirði,“ segir í tillögunni sem samþykkt var í byggðaráði.

Þá á að óska eftir  samvinnu við Byggðastofnun og ráðuneyti byggðamála um tafarlausar aðgerðir til að sporna við byggðaröskun og fólksfækkun á Hofsósi.

„Skortur á aflaheimildum, skerðingar á byggðakvóta og nýleg einhliða aflétting sjávarútvegsráðuneytis á friðun á innanverðum Skagafirði fyrir dragnótaveiði, hafa skapað mjög alvarlega stöðu fyrir byggðina,“ segir í greinargerðinni um Hofsós.

„Skjótvirkasta leiðin til úrbóta er að auka strax við byggðakvóta en hann hefur dregist mjög saman þrátt fyrir almennar aukningar á veiðiheimildum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×