Innlent

Meirihluti plastumbúða skilar sér ekki til endurvinnslu

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra. VÍSIR/ANTON BRINK
Aðeins rúm 42 prósent af þeim plastumbúðum sem settar voru á markað árið 2016 skiluðu sér til endurvinnslu og magn plastumbúða á markaði jókst um tæplega 1.400 tonn milli áranna 2014 til 2016.

Þetta kemur fram í svari Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, við fyrirspurn Olgu Margrétar Cilia, varaþingsmanns Pírata, fyrir helgi.

Þar segir að til séu áreiðanlegar tölur frá Endurvinnslunni hf. og Úrvinnslusjóði yfir notkun plastumbúða, það er magn umbúða sem settar eru á markað og afdrif þeirra. Plastumbúðir á markaði árið tvö þúsund og fjórtán voru 13.660 tonn en af þeim skiluðu 4.478 tonn sér til endurvinnslu.

Árið 2014 nam magn plastumbúða 14.806 tonnum en til endurvinnslu komu 5.511 tonn. Árið 2016 var magnið 15.029 tonn en af þeim skiluðu 6.411 tonn sér í endurvinnslu.

Plastumbúðir sem skiluðu sér til brennslu með orkunýtingu námu á alls 423 tonnum árið 2014 og 666 tonnum árið 2016. Plastúrgangur, annar en plastumbúðir, sem skiluðu sér í endurvinnslu var 193 tonn 2014, 171 tonn 2015 og 666 tonn árið 2016.

Í svarinu segir að erfitt sé að leggja mat á hversu stór hluti þetta er af þeim plastúrgangi sem fellur til þar sem tölur yfir notkun vantar og töluverður hluti plastúrgangs fer að öllum líkindum með blönduðum úrgangi til förgunar.

Í svarinu kemur einnig fram að alls voru flutt inn rúmlega 155 kíló af innkaupapokum úr plasti í fyrra en magntölur fyrir innlenda framleiðslu séu ekki fáanlegar.

Þar sem fyrirspurn Olgu Margrétar sneri að mengun af völdum plastnotkunar kemur fram að ekki hafi farið fram beinar mælingar á þeirri mengun. Umfang úrgangs við strendur sé þó reglulega kannað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×