Frakkinn Antoine Griezmann fór á kostum og skoraði þrennu í stórsigri Atletico Madrid á Sevilla í spænska boltanum í kvöld.
Diego Costa, fyrrum leikmaður Chelsea, skoraði fyrsta mark leiksins á 29. mínútu áður en Griezmann skoraði annað mark liðsins rétt fyrir hálfleik.
Í seinni hálfleiknum héldu gestirnir frá Madrid áfram að sækja og fengu þeir vítaspyrnu á 51. mínútu. Á punktinn steig Griezmann og skoraði sitt annað mark.
Nokkrum mínútum seinna var staðan orðin 4-0 þegar Koke skoraði og gerði endanlega út um vonir Sevilla. Grizmann var hinsvegar ekki búinn að segja sitt síðasta heldur skoraði hann sitt þriðja mark á 81. mínútu of fullkomnaði þrennu sína.
Sevilla náði rétt svo að klóra í bakkann undir lokin með tveimur mörkum frá Sarabia og Nolito en nær komust þeir ekki og því voru lokatölur 5-2.
Eftir leikinn er Atletico Madrid með 58 stig í 2. sæti deildarinnar, sjö stigum á eftir Barcelona en Sevilla er í 6. sæti með 39 stig.
