Erlent

Höfnuðu að banna hríðskotariffla í kjölfar banvænnar skotárásar

Kjartan Kjartansson skrifar
Nemendur frá Marjory Stoneman Douglas-framhaldsskólanum mættu í rútum til höfuðstaðarins Tallahassee til að þrýsta á um aðgerðir í skotvopnamálum. Allt kom þó fyrir ekki í ríkisþinginu.
Nemendur frá Marjory Stoneman Douglas-framhaldsskólanum mættu í rútum til höfuðstaðarins Tallahassee til að þrýsta á um aðgerðir í skotvopnamálum. Allt kom þó fyrir ekki í ríkisþinginu. Vísir/Getty
Þingmenn á ríkisþingi Flórída neituðu að taka fyrir frumvarp um bann við hríðskotarifflum eins og þeim sem notaður var í banvænni skotárás í framhaldsskóla í síðustu viku. Árásin kostaði sautján nemendur skólans lífið.

Demókratar á ríkisþinginu kröfuðust atkvæðagreiðslu um að taka frumvarpið til umfjöllunar í dag. Mikil umræða hefur verið um skotvopnalöggjöf í Bandaríkjunum eftir skotárásina í Parkland á Flórída á miðvikudag. Fyrrverandi nemandi skaut þá fjölda manns til bana með hríðskotariffli.

Fjöldi nemenda frá skólanum fylkti liði í þinghúsið til að fylgjast með atkvæðagreiðslunni en þeir hafa orðið ötulir talsmenn hertrar skotvopnalöggjafar eftir blóðbaðið.

Þeim varð þó ekki að ósk sinni því repúblikanar sem hafa meirihluta í neðri deild ríkisþingsins felldu tillöguna um að taka málið á dagskrá, að því er segir í frétt AP-fréttastofunnar. Þar með er ljóst að frumvarpið fær ekki umfjöllun áður en þessu þingi lýkur 9. mars.

Leiðtogar repúblikana á Flórída hafa aftur á móti sagt að þeir sé tilbúnir að skoða að hækka aldurstakmörk fyrir byssukaupum í ríkinu og að svipta einstaklinga skotvopnum tímabundið ef þeir eru taldir hættulegir öðrum.

Þá vill menntamálanefnd öldungadeildar ríkisþingsins bregðast við harmleiknum með því að hafa vopnaða lögreglumenn í öllum skólum á Flórída. Ákvæði þess efnis verður lagt fram í frumvarpi um menntamál sem nú er í meðförum þingsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×