Atul Gupta, einn þriggja Gupta-bræðra sem sæta rannsókn vegna spillingarmála og tengsla við Jacob Zuma, fyrrverandi forseta Suður-Afríku, fer fram á að kyrrsetningu eigna sinna verði aflétt. Reuters greindi frá og vitnaði í dómskjöl.
Dómstóll hafði áður fyrirskipað frystingu um 86 milljóna króna sem Gupta á inni á bankabók og var saksóknurum heimilað að frysta hundruð milljóna til viðbótar í tengslum við rannsókn á mjólkurbúi sem bræðurnir áttu að sjá um til þess að aðstoða samfélag fátækra, svartra bænda. Þeir eru hins vegar sakaðir um að hafa stungið háum fjárhæðum í eigin vasa.
Húsleit var gerð heima hjá þeim Gupta-bræðrum í síðustu viku. Þeir neita þó sök í málinu, rétt eins og Zuma.
