Innlent

Allt að tíu vagnar bilaðir: Hafa hugsan­lega ekki þolað miklar leysingar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Strætisvagn í miklum vatnsflaum á höfuðborgarsvæðinu í síðasta mánuði. Bilunina má hugsanlega rekja til leysinganna.
Strætisvagn í miklum vatnsflaum á höfuðborgarsvæðinu í síðasta mánuði. Bilunina má hugsanlega rekja til leysinganna. vísir/ernir
Á milli átta og tíu strætisvagnar hafa bilað hjá Strætó bs. í gær og í dag með þeim afleiðingum að það hefur þurft að fella niður ferðir á leiðum 12, 14 og 28. Vagnarnir eru aðeins tveggja ára gamlir að sögn Guðmundar Heiðars Helgasonar, upplýsingafulltrúa Strætó.

Grunur leikur á að þegar miklar leysingar voru á höfuðborgarsvæðinu fyrir nokkrum vikum hafi vatn komist inn á svokallaða IBS-ventla í vögnunum og þeir ekki þolað það.

Unnið er hörðum höndum að viðgerð á vögnunum en bíða þarf eftir varahlutum í einhverja þeirra. Einnig er verið að skoða í tengslum við framleiðanda vagnanna hvort mögulega sé um galla að ræða en vagnarnir eru enn í ábyrgð.

Guðmundur segir að bilunin gæti haft áhrif á háannatíma í fyrramálið þó að vonast sé til að svo verði ekki. Nýir vagnar eru síðan væntanlegir til verktaka Strætó og fara þeir á götuna á mánudag.


Tengdar fréttir

Hrina af bilunum í strætisvögnum

Búast má við að einhverjar ferðir falli niður seinnipartinn í dag á leiðum númer 12, 14 og 28 hjá strætó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×