Skoðun

Ef barn er leitt þarf lausn að finnast

Kolbrún Baldursdóttir skrifar
Reynsla mín að vinna með börnum og unglingum nær aftur til ársins 1992. Börn koma ekki til sálfræðings að ástæðulausu. Það er eitthvað sem hrjáir þau. Verkefni sálfræðings er að finna út með barninu og foreldrunum hvað það er sem orsakar vanlíðan þess og hvað hugsanlega viðheldur henni. Með því að skoða gaumgæfilega helstu svið barnsins, heimilið, skólann og námið, vinahópinn, tómstundir og tölvunotkun kemur iðulega í ljós við hvaða aðstæður það er kvíðið eða líður illa og á hvaða sviði í lífinu því líður vel og er sátt. Í langflestum tilfellum hefur komið í ljós að rekja má vanlíðan barna sem leita til sálfræðings til einhverra megin þátta í umhverfinu ýmist þátta tengdum fjölskyldunni, námi/námsgetu eða samskiptum í vinahópnum. Það er hlutverk sálfræðingsins að benda foreldrum og barni á hvaða leiðir eru færar til lausna. Leiðir til lausna fela í sér breytingar eða aðlaganir. Stundum er nauðsynlegt að grípa til nánari greiningar á umhverfisþáttum eða á styrkleikum og veikleikum barnsins til að hægt sé að aðlaga umhverfið betur að þörfum þess. Í langflestum tilfellum finnast viðeigandi lausnir fyrir barnið sem bætir líðan þess og/eða aðstæður. Þess vegna er starf sálfræðings svo gefandi og skemmtilegt.

Börn sem eru kvíðin og óörugg að eðlisfari

Börn sem eru ofurvarkár og kvíðin að eðlisfari upplifa sig oft óörugg jafnvel í aðstæðum þar sem þau eru sátt í. Þetta eru börnin sem eiga það til að ofhugsa hlutina og eru hrædd innra með sér að eitthvað slæmt geti gerst. Þetta eru börnin sem hlusta á fréttir og fyllast kvíða þegar þau heyra af stríðsátökum og náttúruhamförum út í heimi því þau óttast að þetta geti gerst í nærumhverfi þeirra. Sum börn sem glíma kvíða, hræðslu og óöryggi efast einnig oft um eigin getu og hafa jafnvel neikvæðar hugsanir um sjálfa sig.

Sjálfsstyrking og lausnarmiðuð hugsun

Stór hluti af vinnu sálfræðings með börnum er að efla og styrkja sjálfsmat þeirra og hjálpa þeim að endurmeta og leiðrétta neikvæðar hugsanir og ranghugmyndir. Við val sálfræðiaðferðar er tekið mið af vandanum, aldri og þroska. Stuðst er við aðferðir hugrænnar nálgunar (HAM) eftir því sem barnið hefur þroska og aldur til. Áhersla sálfræðings er að kenna börnum að hugsa í lausnum því enginn fer í gegnum lífið án þess að mæta mótbyr. Vandamál, hvort sem þau eru stór eða smá, verða á vegi allra einhvern tíma á lífsleiðinni. Innleiða þarf hjá börnum trú og vissu um að enginn vandi sé svo stór að ekki séu á honum lausn og að engin slæm líðan eða ástand vari að eilífu. Börn þurfa að vita að þau hafi alltaf eitthvað val. Ávallt er áréttað mikilvægi þess að þau tali um mál sín við foreldra sína eða einhvern fullorðinn sem þau treysta.

Börn og tölvunotkun/samfélagsmiðlar

Fræðsla, þar með talin forvarnarfræðsla, er stór hluti meðferðarvinnu sálfræðings með börnum og foreldrum þeirra. Dæmi um mikilvæga forvarnarfræðslu er að kenna börnum hvernig þau skuli umgangast netið. Foreldrum eru einnig veittar leiðbeiningar og ráðgjöf til að mynda hvaða reglur er nauðsynlegt að hafa á heimilinu og hvernig setja skuli börnum mörk um hegðun og samskipti. Langflestir unglingar verja umtalsverðum tíma á samfélagsmiðlum og þá oft í gegnum farsíma. Draga má þá ályktun að óhóflegur tími á samfélagsmiðlum, í tölvuleikjum eða við áhorf sjónvarpsþátta komi niður á svefntíma þeirra og auki kvíða. Börn sem verja mörgum tímum á sólarhring fyrir framan skjá eru verr í stakk búin til að mæta verkefnum og kröfum daglegs lífs. Þegar foreldrar nefna of mikla tölvunotkun barna sinna sem hluta af vandamáli þeirra eru foreldrar og börn ekki endilega sammála um hvort um vandamál sé að ræða. Fyrir barn sem er vant mikilli skjánotkun er erfitt að hugsa til þess að til standi að draga úr henni sérstaklega ef barnið hefur um langan tíma haft óheftan og jafnvel eftirlitslausan aðgang að tölvu/neti. Í öðrum málum eru foreldrar ekki meðvitaðir um mikla netnotkun barna sinna og hversu miklum tíma þau verja til að mynda á samfélagsmiðlum.

Best er ef foreldrar og börn geta komið sér saman um sem flesta hluti og þar á meðal skjátíma. Ef ekki næst samkomulag eru það foreldrarnir sem ráða. Svo virðist sem algengt sé að börn/unglingar hafi óheftan og stundum eftirlitslausan aðgang að skjá og neti. Í þessum tilfellum eru foreldrar hvattir til að setja viðeigandi mörk með því að koma á reglu um tölvunotkun. Einnig eru foreldrar ávallt hvattir til að fylgjast vel með hvaða síður á netinu unglingar þeirra eru að skoða og kenna þeim jafnframt að umgangast netið og samfélagsmiðla af varúð. Almennt séð eru foreldrar þakklátir fyrir ábendingar og ráðgjöf af þessu tagi. Margir upplifa nefnilega vanmátt og óöryggi í þessum efnum og eru ekki vissir um hvort þeir geti sett börnum sínum mörk og þá hvernig mörk best sé að setja. Foreldrar sem eru óöruggir með þessi mál eru hvattir til að leita sér ráðgjafar hjá fagaðilum.

Höfundur er sálfræðingur.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×