Skoðun

Hvað varð um þau?

Haukur Örn Birgisson skrifar
Ég er ekki ratvís maður. Reyndar er ég alveg skelfilega áttavilltur og vel yfirleitt lengstu leiðina til þess að komast á áfangastað. Þetta ætti ég auðvitað helst ekki að viðurkenna og allra síst fyrir konunni minni, sem virðist alltaf vita upp á hár hvar hún er staðsett. Það virðist engu skipta hvar í heiminum við erum stödd, inni í hvað stórborg eða í hvaða verslunarmiðstöð – alltaf virðist hún vita í hvaða átt við eigum að fara og hvar við lögðum bílnum. Ef ég á að segja eins og er, þá fer þetta svolítið í taugarnar á mér, þar sem ég hef það prinsipp (eins og aðrir karlmenn) að spyrja ekki til vegar. Á móti viðurkenni ég, í hljóði, að það getur verið gott að ferðast um heiminn með svona áttavita og hún nennir varla lengur að nudda mér upp úr þessu, blessunin.

Eins og gengur og gerist þá verður fólk á vegi mínum sem spyr mig til vegar. Yfirleitt eru þetta ferðamenn sem ætla sér á tiltekinn veitingastað, verslun eða safn. Eins og góður þjóðfélagsþegn þá hika ég ekki við að vísa þeim stystu leiðina á staðinn sem þau eru spennt fyrir að heimsækja næst. Þetta á bæði við hér heima og erlendis, jafnvel þótt ég þekki lítið til staðarins og hafi einungis rambað fram hjá honum eða séð hann á korti. Ég tel mig alltaf þekkja leiðina.

Ég leiði stundum hugann að því hvað varð eiginlega um þetta aumingja fólk og hver örlög þess urðu. Í hvers konar vandræðum lenti það eða tókst því að finna staðinn, þrátt fyrir leiðbeiningar mínar? Hversu mikið ætli það hafi blótað mér þegar það rann upp fyrir því að það hefði betur spurt einhvern annan?




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×