Umboðsmaður Alþingis mun ekki gera frumkvæðisathugun á embættisfærslum Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra við ráðningu fimmtán dómara við Landsrétt.
Umboðsmaður telur umfjöllun dómstóla svara nægilega vangaveltum um undirbúning og ákvarðanir ráðherrans í málinu.
„Í ljósi fyrirliggjandi umfjöllunar dómstóla og Alþingis um undirbúning og ákvarðanir dómsmálaráðherra vegna tillagna um skipun dómara í landsrétt telur umboðsmaður alþingis ekki tilefni til þess að hann taki einstök atriði þess máls til athugunar að eigin frumkvæði,“ segir í bréfi til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins.
Nefndin ákvað 6. febrúar að gefa umboðsmanni rými til að taka afstöðu til þess hvort hann hæfi frumkvæðisathugun á málinu.
Hæstaréttardómar hafa fallið gegn ráðherranum þar sem hún fór ekki eftir stjórnsýslulögum. „Af lestri þessara dóma fékk ég ekki annað séð en að þar væri nægjanlega upplýst um málsatvik og lagaatriði,“ segir í bréfi umboðsmanns.
Hins vegar ætlar umboðsmaður að skoða að nýju stigagjöf við mat á umsækjendum um opinber störf.
„Hefur umboðsmaður hugað að því að hefja frumkvæðisathugun þar sem dregin verða fram dæmi um áhrif slíkrar stigagjafar og hvernig hún horfir við með tilliti til reglna stjórnsýsluréttarins, úrlausna dómstóla og vandaðra stjórnsýsluhátta og þá sérstaklega með það í huga að hvaða leyti þurfi að vanda betur til þessara mála.“
Einnig segir umboðsmaður ekki tilefni til athugunar á ráðgjafarskyldu opinberra starfsmanna. Ráðherrann hafi fengið ráðgjöf í samræmi við lagaskyldu opinberra starfsmanna en þó ekki fylgt henni.
„Það hvaða upplýsingar þingmenn höfðu um þennan þátt málsins þegar þeir fjölluðu um það fellur einnig utan starfsviðs umboðsmanns,“ segir í bréfi umboðsmanns.
