Innlent

Ósamvinnuþýðir „spilarar“ handteknir á skemmtistað

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Alls komu 66 mál til afgreiðslu lögreglu í nótt.
Alls komu 66 mál til afgreiðslu lögreglu í nótt. Vísir/Eyþór
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lokaði skemmtistað í austurborginni laust fyrir klukkan 01:00 í nótt þar sem fólk reyndist vera undir lögaldri. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

„Mjög treglega gekk að loka staðnum vegna framgöngu starfsmanna og þeirra sem héldu uppi spilinu,“ segir í dagbók lögreglu. Téða „spilara“ þurfti að handtaka svo lögregla fengi vinnufrið á vettvangi.

Viðkomandi skemmtistaður hefur margítrekað komið við sögu lögreglu vegna viðlíkra mála og væntanlega munu leyfismál staðarins vera tekin til ítarlegrar skoðunar eftir helgi.

Klukkan 02:11 í nótt var kona handtekin eftir að hafa sparkað í höfuð karlmanns í miðbæ Reykjavíkur. Konan verður yfirheyrð síðar í dag vegna málsins.

Mál er varða ölvunar- og fíkniefnaakstur komu auk þess inn á borð lögreglu í nótt eins og flestar nætur. Samtals tók lögregla 66 mál til afgreiðslu frá klukkan 23:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×