Erlent

Pútín sýndi sprengjuregn yfir Flórída

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hér má glöggt sjá Flórída-skaga.
Hér má glöggt sjá Flórída-skaga. Vísir
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, kynnti í dag „ósigrandi“ langdræga eldflaug sem hann sagði að gæti náð til allra landa í heiminum og að eldflaugavarnir Bandaríkjamanna gætu ekki stöðvað þær. Athygli hefur vakið í kynningarmyndbandi sem sýnt var samhliða ræðu forsetans mátti sjá sprengjum rigna yfir Flórída-skaga Bandaríkjanna.

Um nýju eldflaugina sagði hann að erfitt væri að greina hana, hún hefði nánast ótakmarkað drægi og enginn núverandi eða framtíðareldflaugavarnarkerfi eða loftvarnir gætu stöðvað hana, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Líkt og sjá má í myndbandinu hér að neðan mátti sjá sprengjuoddum rigna yfir Flórída en þetta tiltekna myndbrot entist aðeins í örfáar sekúndur.

Í samtali við BBC segir talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins að hvorki ræða Pútíns, né myndbrotið, hafi komið á óvart.

„Bandaríkjamenn geta sofið rólegir. Við erum fullkomnlega reiðubúin,“ sagði Dana White, talsmaður varnarmálaráðuneytisins.

Sérfræðingar segja ólíklegt að ef kæmi til kjarnorkustríðs milli stórveldanna tveggja yrði Flórída eitt af aðalskotmörkum Rússa, þrátt fyrir að þar megi finna eina af stjórnstöðum Bandaríkjahers og Mar-A-Lago, hvíldarstað Donald Trump, forseta Bandaríkjanna.

Mark Fitzpatrick, sérfræðingur í varnarmálum, segir í samtali við BBC að Pútín sé með myndbandinu ekki að varpa ljósi á hernaðaráætlanir Rússa.

„Þetta eru skilaboð og myndbandið er táknrænt. Þetta er leið til þess skreyta ræðuna.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×