Skoðun

Í vikunni barst mér bréf

Guðmundur Steingrímsson skrifar
Í vikunni bárust mér eins og öðrum Íslendingum sem eru fæddir árið 1972 boð frá yfirvöldum um að koma í samræmd próf í lok þessa mánaðar. Auðvitað hef ég búist við þessu bréfi. Þetta er fastur liður í samfélaginu. Allir þurfa að taka þessi próf með reglulegu millibili.

Nú er ekkert annað að gera en að setjast niður og opna bækurnar. Kaupa fullt af nammi og læra fram á nótt. Prófað verður í íslensku, ensku og stærðfræði. Það er svolítið óljóst af hverju þessi próf eru lögð fyrir fólk. Það hefur í sjálfu sér ekkert verið rætt. Fólk bara tekur þau. Ég er svolítið kvíðinn. Sumir segja að niðurstaðan hafi áhrif á það hvernig manni gengur í lífinu. Ef maður stendur sig vel getur maður búist við því að fá hærri laun. Ef maður stendur sig ekki vel, þá er dregið af manni í launum. Ef maður fellur getur maður gleymt þessu. Aðrir segja að þetta skipti engu máli.

Hinn fullkomni fáránleiki

Þetta er að sjálfsögðu uppspuni. Það er hins vegar áhugavert að velta fyrir sér hvað væri fáránlegt í þessu dæmi. Til að mynda þetta: Ég vona að sem flestir sjái hversu asnalegt það væri að leggja svona mælikvarða á hæfileika fólks, með tilheyrandi brölti og tilkostnaði. Einstaklingur með slaka málvitund, sem les lítið og er illa skrifandi, getur verið mesti snillingur sem landið á í hugbúnaðargerð. Manneskja sem ekki getur diffrað (flestir) getur verið landsins besti bakari. Einhver sem ekki kann fullkomna ensku er mögulega okkar mesta aflakló á sjó. Samræmdur mælikvarði á getu fólks í fjölbreyttu, lifandi samfélagi er fullkomlega – og ég segi það aftur – fullkomlega fáránleg hugmynd. Hún er absúrd.

En gerum þetta samt við börnin

Einhvern tímann í sólkerfi langt, langt í burtu ákvað einhver, einhvern tímann, að það væri samt svolítið snjallt að gera svona við börnin okkar. „Dembum á börnin svona samræmdu dóti,“ sagði Zorglub á plánetunni Ráðuneyti. „Látum þau fá kvíðakast og enginn veit almennilega til hvers! Múhahaha!“

Í alvöru. Hver ákvað þetta? Hvenær? Hver var pælingin? Aftur hið augljósa: Allir vita hvað börn og unglingar eru mismunandi. Hæfileikar þeirra, rétt eins og í tilviki fullorðinna, liggja á alls konar ólíkum sviðum. Kennarar eru með börnunum okkar hálfan daginn nánast allan ársins hring í meira en áratug. Ég myndi segja að við ættum að líta svo á að hlutverk kennaranna sé einmitt þetta: Að hjálpa börnunum okkar á mótunarskeiði lífsins að finna hæfileika sína og rækta þá. Ef skólakerfið gerir þetta ekki, þá ættum við að sleppa því að hafa skólakerfi.

Enginn pípari án Laxness

Samræmd próf hafa engu við þetta göfuga markmið að bæta. Og hin samræmda meinloka um samræmda þekkingu er allt um lykjandi. Eitthvað það dapurlegasta sem maður sér í nútímasamfélagi er ung manneskja sem ekki fær að mennta sig í því sem hún hefur áhuga á vegna þess að hún hefur ekki ennþá lesið bók eftir Laxness og tekið íslenskupróf í henni.

Það er engin tilviljun að ég nefni þetta dæmi, sem er raunverulegt. Það situr í mér. Djókið er allt á kostnað unga fólksins. Allir vita að Laxness skeytti engu um próf og skrifaði sérviskulega íslensku. Hann fékk samt Nóbelsverðlaunin. Hið magnaða er að einhverri stofnun hefur tekist að gera bækur eftir Laxness að hindrun, þegar þær ættu einmitt frekar að vera fyrirmynd og löngu tímabær áminning um þetta: Hættum að trolla únga fólkið. Hjálpum því heldur að blómstra.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×