Innlent

Rekstur sjúkrabíla á Íslandi í uppnámi

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Sjúkrabílar í útkalli - Mynd úr safni
Sjúkrabílar í útkalli - Mynd úr safni Vísir/Jóhann K. Jóhannsson
Rekstur sjúkrabílaflotans á Íslandi er í uppnámi eftir að ríkið tók ákvörðun um að Rauði krossinn hætti rekstri þeirra. Ekki liggur fyrir hvort Velferðarráðuneytið ætli að sjá um áframhaldandi rekstur eða hvort hann verði boðinn út. Kostnaður ríkisins við yfirtökuna gæti hlaupið á hundruðum milljóna.

Um níutíu ár eru síðan Rauða kross deildir hófu að safna fyrir kaupum og síðar rekstri á sjúkrabílum. Þegar félagið var stofnað árið 1924 var til einn sjúkrabíll á landinu og var hann staðsettur í Reykjavík. Árið  1926 kom fyrsti bíllinn undir merkjum félagsins síðan þá hefur orðið gífurleg tæknivæðing og þróun í sjúkraflutningum á Íslandi.

Rauði krossinn á og rekur sjötíu og átta sjúkrabíla og sex til átta varabíla og er þeim dreift víðs vegar um landið. Hins vegar er komið að lokum í þessum rekstri því ríkið ætlar að taka við honum og það mun kosta mikinn pening.





Sjúkrabíll frá Selfossi í útkalli - Mynd úr safniVísir/Jóhann K. Jóhannsson
Samningaviðræður hafa verið undanfarin misseri á milli Velferðarráðuneytisins og Rauða krossins um rekstur bílanna en samningurinn þeirra á milli hefur verið laus í þrjú ár. Ríkið tók svo ákvörðun um að taka alfarið við rekstrinum en óskaði eftir því að það yrði gert á þremur árum.

„Þegar við urðum þess áskynja, og það var skýr vilji ráðuneytisins og ráðherra að taka yfir sjúkrabílareksturinn, að þá var ekkert annað að gera en að hætta og það var ekki eftir neinu að bíða. Það var betra að fara vinda ofan af samstarfinu strax,“ sagði Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands.

Samkvæmt heimildum fréttastofu mun þessi aðskilnaður gerast hratt og hefur Velferðarráðuneytið aðeins um mánuð til að koma með tillögur að yfirtökunni. Þegar sú ákvörðun liggur fyrir á svo eftir að semja um kaup ríkisins á öllum sjúkrabílunum og öllum þeim sérhæfða tækjabúnaði sem í bílunum eru. Áætla má að það hlaupi á hundruðum milljóna sem ríkið þarf að greiða.

Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða kross ÍslandsVísir/Baldur Hrafnkell Jónsson
„Við þurfum að fá hlutlaust fyrirtæki til að meta eignir í sjóðnum og gera upp og við vonum bara að það gerist hratt og örugglega. Ég hef ekki trú á öðru en að það gerist,“ segir Kristín.

Ekkert liggur fyrir um með hvaða hætti ríkið tekur við rekstrinum eða hvernig hann verður tryggður. Tafir hafa orðið á endurnýjun sjúkrabílaflotans vegna samningsins sem var laus en allir aðilar eru sammála um að kominn sé tími á nýja bíla. Elsti bílinn sem enn er í notkun er staðsettur á Þingeyri og er hann 25 ára gamall.Hefðuð þið viljað halda áfram?

„Já við hefðum viljað halda áfram. Við rekum þetta vel. Við höfum borgað með sjúkrabílaþjónustunni í landinu. Niðurgreitt hana, þannig að fyrir almenning höfum við tryggt sjúkrabíla út um allt land. Ég veit að ríkið á eftir að standa sig vel en við hefðum viljað halda áfram,“ segir Kristín.

Eftirfarandi fréttatilkynning barst frá Rauða krossinum vegna málsins í kvöld:

Samningaviðræður Rauða krossins á Íslandi og heilbrigðisráðuneytisins um rekstur sjúkrabíla hafa staðið yfir sl. 3 ár.  Á síðustu vikum hefur orðið ljóst að stjórnvöld og ráðuneyti vilja taka yfir rekstur sjúkrabíla á næstu árum og því hefur Rauði krossinn á Íslandi ákveðið að slíta samstarfinu.

Rauði krossinn á Íslandi hefur átt og rekið sjúkrabíla í 90 ár, deildir Rauða krossins víða um land voru stofnaðar í kringum kaup á sjúkrabílum. Fyrst átti og rak Rauði krossinn sjúkrabílana einn í 70 ár en síðustu 20 ár samkvæmt samningi við íslenska ríkið með rekstri Sjúkrabílasjóðs Rauða krossins. Rauði krossinn á nú 78 sjúkrabíla sem staðsettir eru víðs vegar um landið. 

Rekstur Sjúkrabílasjóðs Rauða krossins hefur hefur verið afar hagkvæmur. Enginn arður hefur verið tekinn úr sjóðnum og settur í önnur verkefni, heldur ef rekstrarafgangur hefur verið hefur hann verið nýttur til fjárfestinga í nýjum bílum, tækjum og tólum eða til að lækka framlag ríkisins til sjóðsins. Á sl. 90 árum hefur Rauði krossinn á Íslandi lagt afar mikla fjármuni í fjárfestingar og rekstur sjúkrabíla. Rauði krossinn á Íslandi þakkar íslenska ríkinu gott samstarf við rekstur sjúkrabíla sl. 20 ár.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×