Innlent

Utanríkismálanefnd fundaði um mál Hauks Hilmarssonar

Höskuldur Kári Schram skrifar
Áslaug Arna formaður utanríkismálanefndar
Áslaug Arna formaður utanríkismálanefndar visir/stefán
Utanríkismálanefnd Alþingis fundaði í morgun um mál Hauks Hilmarssonar sem féll í stríðsátökum í Sýrlandi í síðasta mánuði. Formaður nefndarinnar segir mikilvægt að afla sem fyrst upplýsinga um afdrif Hauks.

Talið er að Haukur hafi látið lífið þegar tyrkneski herinn gerði sprengjuárás á sjálfstjórnarsvæði Kúrda. Erfiðlega hefur gengið að fá upplýsingar um málið og hvar lík hans er að finna.

Aðstandendur Hauks funduðu með Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra í gær en þeir vilja að utanríkisþjónustan beiti sér af meiri krafti til að afla upplýsingar um afdrif Hauks. Guðlaugur segir að málið sé í forgangi hjá ráðuneytinu en hann ræddi í gær við tyrkneska starfsbróður sinn vegna málsins.

Utanríkismálanefnd Alþingis að frumkvæði Loga Einarssonar formanns Samfylkingarinnar óskaði eftir upplýsingum um málið en nefndin ræddi í morgun verkferla vegna Íslendinga á stríðshrjáðum svæðum.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður utanríkismálanefndar segir ljóst að starfsmenn utanríkisráðuneytisins séu að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að upplýsa málið.

„Þetta er mjög einstakt mál og án fordæma hér á landi,“ segir Áslaug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×