Innlent

Ræddi við utanríkisráðherra Tyrklands vegna Hauks Hilmarssonar

Höskuldur Kári Schram skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ræddi í dag við tyrkneskan starfsbróður sinn til að fá upplýsingar um afdrif Hauks Hilmarssonar sem féll í Sýrlandi í síðasta mánuði. Guðlaugur fundaði í dag með aðstandendum Hauks.

Talið er að Haukur hafi látið lífið þegar tyrkneski herinn gerði sprenguárás á sjálfstjórnarsvæði Kúrda í Sýrlandi í síðasta mánuði. Erfiðlega hefur gengið að fá nákvæmar upplýsingar um málið og hvar lík hans er að finna.

Aðstandendur Hauks hafa kallað eftir því að íslensk stjórnvöld beiti sér af meiri krafti í málinu og funduðu þeir með utanríkisráðherra í dag.

„Okkur fannst ekki mikið vera að gerast í þessum málum. Við fengum upplýsingar fljótlega eftir að þetta gerist að það væri verið að vinna í málinu en svo var ekkert að gerast. Þannig að við vorum svolítið gagnrýnin á þetta og óskuðum eftir fundi með ráðherra,“ segir Borghildur Hauksdóttir frænka Hauks.

Guðlaugur segir að málið hafi verið forgangi hjá ráðuneytinu frá fyrsta degi og hann vonast til þess að hægt verði að fá niðurstöðu í það fljótlega. Hann talaði við tyrkneska utanríkisráðherrann í dag vegna málsins.

„Hann tók vel í málaleitan mína og við skulum vona að það skili sér,“ segir Guðlaugur. „Við munum halda áfram þessari málaleitan og reyna draga á alla þá tengiliði sem við höfum og sem við höfum gert. Flest sendiráðin hafa verið nýtt í þessu sem og fastanefndirnar. Við höfum verið í samskiptum við nágrannalöndin og vonandi mun þetta skila þeim árangri sem við vonumst eftir,“ segir Guðlaugur.

Borghildur segist vera sátt við svör ráðherra. „Það virðist vera komin einhver smá skriður á málið þannig að við erum að vonast til þess að það verði unnið núna af öllum mætti í þessu máli,“ segir Borghildur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×