Fótbolti

Stuðningsfólk Atlanta United að reyna að stela af okkur Víkingaklappinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsfólk Atlanta United.
Stuðningsfólk Atlanta United. Vísir/Getty
Bandaríska fótboltatímabilið er komið af stað og meðal liðanna sem keppa í MLS-deildinni er lið Atlanta United FC.

Atlanta United spilar á hinum nýja og glæsilega leikvangi Mercedes-Benz Stadium í Atlanta borg. Leikvangurinn var tekinn í notkun í ágúst 2017 og Atlanta United var stofnað fyrir aðeins þremur ár.

Þetta tímabil verður annað tímabil félagsins í MLS-deildinni og það er ljóst að félagið hefur þegar eignast marga stuðningsmenn. Það þarf ekki annað en að skoða mætinguna á Mercedes-Benz Stadium.

Þannig mættu yfir 72 þúsund manns á fyrsta heimaleik félagsins á leiktíðinni í nótt og það þrátt fyrir að Atlanta liðið hafi tapað 4-0 á útivelli í fyrsta leik. 

Þetta var nýtt áhorfendamet á leik í MLS-deildinni og í raun í þriðja sinn sem Atlanta United bætir þetta met.

Stuðningsmenn Atlanta United tóku sig líka til og buðu upp á Víkingaklappið á leiknum í gær eins og sjá má í myndbandinu hér fyrir neðan.







Atlanta United er ekki fyrsta félagið til að „stela“ Víkingaklappinum því NFL-liðið Minnesota Vikings tók það upp eftir EM-sumarið 2016. Maður sér víkingatengslin þar en það er erfiðara að sjá tengslin við lið frá suðurríkjum Bandaríkjanna.

Það breytir þó ekki því að Víkingaklappið er flott þegar það er tekið af 72 þúsund manns.

Atlanta United endaði í fjórða sæti deildarkeppninnar í fyrra eftir 15 sigra (og 10 töp) í 34 leikjum. Liðið skoraði 30 mörkum fleira en mótherjarnir og var með yfir tvö mörk að meðaltali í leik. Atlanta United féll síðan út út fyrstu umferð úrslitakeppninnar eftir tap í vítakeppni.

Atlanta United spilar næsta heimaleik sinn á móti Vancouver Whitecaps 17. mars næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×