Erlent

Þúsundir mótmæltu sinnuleysi yfirvalda í Kemerovo

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Pútín skrifar eldsvoðann á sunnudag á "glæpsamlega vanrækslu.“
Pútín skrifar eldsvoðann á sunnudag á "glæpsamlega vanrækslu.“ Vísir/Getty
Þúsundir mótmæltu í síberísku borginni Kemerovo í dag vegna eldsvoðans á sunnudaginn. Minnst 64 létust í eldsvoðanum sem kviknaði á efri hæð í verslunarmiðstöð í borginni, meirihluti þeirra voru börn. Sinnuleysi yfirvalda var mótmælt harðlega í dag og kröfðust mótmælendur meðal annars afsagnar Vladimír Pútíns Rússlandsforseta.

Pútín skrifar eldsvoðann á „glæpsamlega vanrækslu.“ Fimm verið handteknir vegna gruns um aðild að málinu og var gæsluvarðhald framlengt yfir þeim í dag samkvæmt frétt BBC. Margir neyðarútgangar voru læstir þegar eldurinn kom upp og rannsakendur telja að búið hafi verið að slökkva á brunabjöllum.

Forsetinn heimsótti rústir verslunarmiðstöðvarinnar og var tíðrætt um hroðvirkni og viðvaningshátt þegar talið barst að öryggismálum verslunarmiðstöðvarinnar. Á upptökum úr öryggismyndavélum sést hvernig fólk fleygði sér út um glugga til að verða ekki eldinum að bráð.

Mótmælendur sögðu að mun fleiri en 64 hafi látist í þessum mannskæða eldsvoða og að fjölda barna sé enn saknað. Flestir sem létust voru börn sem voru að leik á leiksvæði verslunarmiðstöðvarinnar. Mótmælendurnir í Kemerovo í dag kröfðust þess að eldsvoðinn yrði rannsakaður og að forsetinn myndi segja af sér.

Lýst hefur verið yfir þjóðarsorg í] landinu á morgun, miðvikudag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×