Enski boltinn

Ekki nógu góður fyrir Mourinho en nógu góður fyrir Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luke Shaw gæti endað hjá Barcelona.
Luke Shaw gæti endað hjá Barcelona. Vísir/Getty
Luke Shaw á ekki mikla framtíð fyrir sér á Old Trafford enda langt frá því að vera uppáhaldsleikmaður knattspyrnustjórans Jose Mourinho.

Fréttir voru af því í síðustu viku að Mourinho hafi hreinlega lagt Luke Shaw í einelti og að samband þeirra sé mjög slæmt. Mourinho hikar ekki við að gagnrýna bakvörðinn í fjölmiðlum.

Eitt besta knattspyrnulið heims virðist hafa miklu meira álit á enska landsliðsbakverðinum ef marka má frétt í Daily Mirror í dag.

Daily Mirror hefur heimildir fyrir því að Barcelona vilji fá Luke Shaw til sín í sumar. Shaw á bara eitt ár eftir af samningi sínum við Manchester United og hefur ekki viljað gera nýjan samning. 

Hinn 22 ára gamli Luke Shaw hefur leikið sjö landsleiki og ætti að öllu eðlilegu að vera framtíðarbakvörður hjá flestum liðum þótt ekki eigi hann upp á pallborðið hjá portúgalska stjóranum. 

Það vantar þó ekki landsliðsmenn í vinstri bakvarðarstöðuna hjá Barcelona. Spænski landsliðsmaðurinn Jordi Alba er fastamaður og franski landsliðsmaðurinn Lucas Digne vill fá meiri mínútur en fær ekki. 

Arsenal og Chelsea eru einnig sögð áhugasöm að fá til sín Luke Shaw. Þótt að framtíð hans hjá Manchester United sé ekki björt þá lítur út fyrir að hann þurfi ekki mikið að örvænta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×