Innlent

Kemur til greina að nota fundarlaun við rannsókn á fleiri málum

Sunna Sæmundsdóttir og Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifa
Ólafur Helgi Kjartansson lögreglustjóri á Suðurnesjum
Ólafur Helgi Kjartansson lögreglustjóri á Suðurnesjum Skjáskot/Stöð 2
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum segir koma til greina að nota fundarlaun við rannsókn á fleiri málum ef vel gengur að finna tölvubúnað sem fundarlaunum var heitið fyrir í gær. Nokkrar ábendingar hafa þegar borist. 

Eigandi búnaðarins sem var stolið úr gagnaveri í Reykjanesbæ fyrir nokkrum vikum mun greiða fundarlaunin en lögreglan á Suðurnesjum fer með rannsókn málsins og tekur við ábendingum til 12. apríl. Eigandinn vill ekki láta nafns síns getið. Búnaðurinn er hluti af þýfinu í þremur innbrotum í gagnaver í Reykjanesbæ og í Borgarbyggð frá desember til janúar þar sem 600 tölvum að verðmæti 200 milljóna króna var stolið. 

„Fundarlaununum var heitið í gær og hafa nokkrar ábendingar þegar borist. Það bárust nokkrar ábendingar í morgun og þær eru til athugunar og við skoðum hvað kemur út úr því. Allar vísbendingar sem gætu leitt okkur að því hvar þýfið væri niðurkomið, við tökum þær alvarlega,“ segir Ólafur Helgi Kjartansson lögreglustjóri á Suðurnesjum.

Einn íslenskur karlmaður situr í gæsluvarðhaldi vegna málsins og hafa nokkrar húsleitir verið gerðar en grunur leikur á að málið gæti teygt anga sína til annarra landa. Ólafur segist aldrei hafa unnið að rannsókn með þessum hætti en fyrirkomulagið gæti verið tekið upp í fleiri málum.

„Þetta hefur aldrei borið á mitt borð þau ár sem ég hef starfað í tengslum við og í lögreglunni. Þannig að þetta er nýlunda en svo er að sjá hvort þetta sé eitthvað sem við tökum upp. Kannski að það gerist í framhaldi af þessu. Við skulum vona að vel gangi en nú er það svo að menn spyrja alltaf að leikslokum.“


Tengdar fréttir

Tölvurnar eru enn ófundnar

Enn hefur hvorki sést tangur né tetur af um 600 tölvum sem stolið var í þremur innbrotum í gagnaver í Borgarbyggð og Reykjanesbæ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×