Innlent

Vatnsúðakerfi í öllum húsum Geymslna nema Miðhrauni

Birgir Olgeirsson skrifar
Gríðarlegur eldur beið slökkviliðsmanna þegar þeir mættu á staðinn.
Gríðarlegur eldur beið slökkviliðsmanna þegar þeir mættu á staðinn. Vísir/Birgir
Vatnsúðakerfi er í öllum húsum fyrirtækisins Geymslna sem eftir standa. Geymslur var með húsnæði á leigu í Miðhrauni sem brann til kaldra kola síðastliðinn fimmtudag. Greint var frá því síðastliðinn fimmtudag að ekkert vatnsúðakerfi hefði verið í húsnæðinu í Miðhrauni en framkvæmdastjóri Geymslna segir í samtali við Vísi að slíkt kerfi sé í öllum hinum húsunum þar sem Geymslur eru með rekstur.

Um 200 geymslurými voru í húsnæði Geymslna í Miðhrauni. Geymslur eru einnig með geymslupláss á Fiskislóð 11 og 25, Iðuvöllum í Reykjanesbæ, og Tunguhálsi í Reykjavík. Flest geymsluplássin eru á Fiskislóð 11, eða rúmlega 250, á Fiskislóð 25 eru rúmlega 200 geymslupláss, um hundrað á Iðuvöllum og 250 á Tunguhálsi.

Ómar Jóhannsson er framkvæmdastjóri Geymslna en hann segir fyrirtækið hafa velt fyrir sér næstu skrefum þegar kemur að öryggismálum. Hvert hús hafi sitt öryggiskerfi en helsti munurinn á þeim sé sá að vatnsúðakerfi er í öllum húsunum nema í Miðhrauni.

Ómar segist ekki geta svarað hvernig stendur á því. „Við erum leigutakar í þessu húsi og það er byggt árið 2005. Við höfum fylgt þeim byggingarreglugerðum sem um það gilda og þar er talið eðlilegra að hafa brunahólf. Hvers vegna er fyrir utan mína þekkingu. Það er eitthvað sem við komum ekki nálægt sem leigutakar,“ segir Ómar.

Spurður hvort að viðskiptavinir Geymslna hafi orðið tvístígandi með frekari viðskipti við fyrirtækið eftir brunann segist Ómar ekki hafa orðið var við það. „Ég held að fólk líti á þetta sem einstakt óhapp.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×