Innlent

Yfirbugaður af sérsveitinni eftir tilraun til vopnaðs ráns

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Sérsveitin var kölluð út á Akureyri í gærkvöldi.
Sérsveitin var kölluð út á Akureyri í gærkvöldi. Vísir/Auðunn
Síðasti sólarhringur hefur verið annasamur hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra. Sérsveitin var kölluð út á Akureyri í gærkvöldi vegna tilraunar til ráns. Maður í annarlegu ástandi ógnaði starfsmanni á bar með tveimur hnífum, sinn í hvorri hendinni, og hótaði að skaða starfsmanninn ef hann fengi ekki peningana úr afgreiðslukassanum.

Lögreglan var skammt frá þegar fólk fór að veifa til lögreglu og óska aðstoðar. Lögreglumenn ásamt sérsveit ríkislögreglustjóra, sem staðsett er á norðurlandi eystra, yfirbuguðu manninn sem hafði ekki lagt frá sér hnífana þrátt fyrir ítrekuð fyrirmæli lögreglu um að leggja þá frá sér og otaði hann hnífunum í átt að lögreglumönnum.

Engin meiðsl hlutust af samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Norðurlandi eystra. Maðurinn var handtekinn og færður í fangaklefa.

Á síðasta sólarhring tók lögreglan einnig 14 ökumenn fyrir of hraðan akstur og tvo fyrir að aka yfir á rauðu umferðarljósi. Tveir voru teknir fyrir vörslu fíkniefna, tveir grunaðir um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og einn grunaður um ölvun við akstur. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×