Innlent

Slökkviliðið nýtti sér hitadróna í Miðhrauni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Við slökkvistarf í Miðhrauni í Garðabæ í gær þar sem kviknaði í rúmlega fimm þúsund fermetra geymslu- og iðanaðarhúsnæði var notast við hitadróna í eigu ríkislögreglustjóra. Með þessum hætti fengu slökkviliðsmenn upplýsingar um hvar mestur hiti væri í húsnæðinu og hvernig væri best að sækja að eldinum.

Í myndbandinu má sjá hvernig húsið skiptist í þrjá hluta. Lagerinn hjá Icewear í miðju, heitasta svæðinu, og svo lager Marels og geymslur á vegum Geymslna ehf. til endanna.

Ljóst er að tjón Icewear hleypur á hundruð milljónum króna og sömuleiðis er tjón Marels mikið. Þá voru rúmlega tvö hundruð geymslurými í húsinu á vegum Geymslna og ljóst að leigjendur þar hafa tapað miklu.

Ýmislegt er enn óvíst er varðar eldinn í Miðhrauni. Eldsupptök eru enn ókunn og lögregla tjáir sig ekki um hvort grunur leiki á um íkveikju. Þá er réttur leigjenda í geymslurýminu sömuleiðis óljós en á heimasíðu Geymslna kemur fram að leigjendur þurfi sjálfir að tryggja eigur sínar. Það er hins vegar álitamál.


Tengdar fréttir

Margir í áfalli eftir stórbruna

Slökkviliðsstjóri segir brunann í Miðhrauni líklega þann stærsta frá Skeifubrunanum 2014. Tjón er talið hlaupa á hundruðum milljóna og húsnæðið talið nær ónýtt. Leigjendur geymslurýma margir í áfalli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×