Innlent

Margir í áfalli eftir stórbruna

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Bunurnar virtust mega sín lítils gegn vítislogum og tinnusvörtum reykmekkinum sem vofði yfir í Miðhrauni í gær. Slökkviliðsmenn og aðrir viðbragðsaðilar sem kallaðir voru á vettvang unnu þrekvirki.
Bunurnar virtust mega sín lítils gegn vítislogum og tinnusvörtum reykmekkinum sem vofði yfir í Miðhrauni í gær. Slökkviliðsmenn og aðrir viðbragðsaðilar sem kallaðir voru á vettvang unnu þrekvirki. Vísir/Vilhelm
„Þetta er gífurlegt áfall fyrir þessi fyrirtæki og einstaklinga sem áttu þarna margir dýrmæta hluti og annað í geymslunum. Þessi atburður snertir marga sem eru vafalaust að ganga í gegnum erfiða tíma,“ segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins, um stórbrunann að Miðhrauni 4 í Garðabæ í gær. Atvinnuhúsnæðið er að verulegum hluta ónýtt og tjónið hleypur líklega á hundruðum milljóna króna.

Eldurinn kom upp um áttaleytið í gærmorgun og skíðlogaði í húsinu langt fram eftir degi. Allt tiltækt lið slökkviliðsmanna barðist hetjulega við eldtungur, reyk og erfiðar aðstæður langt fram eftir degi. Bruninn var erfiður viðureignar en slökkviliðið taldi sig fyrst hafa náð tökum á honum seinnipartinn. Mikinn og dökkan reykjarmökk lagði frá húsinu og yfir nærliggjandi byggð. Jón Viðar bjóst við að slökkvistarf stæði fram á nótt.

Á vettvangi hafði fljótt safnast saman fjöldi vegfarenda og fulltrúa fjölmiðla innan um tækjaflota viðbragðsaðila og allt tiltækt lið. Vegfarendur voru sumir þar fyrir forvitnissakir en á öðrum mátti greina örvæntingu og áhyggjur yfir persónulegum munum. Í húsinu var, auk lagers og starfsemi Ice­wear, fyrirtækið Geymslur sem leigir geymslupláss sem margir nýta undir eigur sínar og jafnvel búslóð. Eins og einn maður sem Fréttablaðið ræddi við á vettvangi.



Geymslur loguðu og ljóst að tjón er margvíslegt og mikið.Vísir/eyþór
„Líklega er það bara allt farið,“ sagði maðurinn sem baðst undan viðtali en upplýsti blaðamann um að hann stæði í flutningum og hefði leigt geymslu í húsinu undir búslóð sína fyrir um mánuði. Hann bar sig þó vel, í skugga tjónsins.

Á vettvangi, bak við lögregluborða sem girtu af hættusvæði, fylgdust fleiri með í von um fréttir af eigum sínum og hvort geymslurnar myndu sleppa. Eftir því sem á leið urðu líkurnar hverfandi.

„Ef ég á að vera alveg hreinskilinn við þig, myndi ég búast við því versta,“ sagði lögreglumaður við leigutaka hjá Geymslum sem bar að á hjóli snemma morguns og spurði frétta. Hann kvaðst eiga dót í geymslu, en varð frá að hverfa á hjóli sínu, út í óvissuna og reykmökkinn svarta.

Nafntogaðir einstaklingar á borð við tónlistarmennina Björgvin Halldórsson og Sigríði Beinteinsdóttur óttuðustu sömuleiðis að verðmæti þeirra og eigur hefðu orðið eldinum að bráð, líkt og Frétta­blaðið.is fjallaði um.

„Þetta er milljóna tjón fyrir mig,“ sagði Sigríður.

Aðspurður segir Jón Viðar brunann fara langt með að vera stærsti bruni sem hans fólk hafi tekist á við síðan í Skeifubrunanum sumarið 2014.

„Þó erfitt geti verið að meta stærð bruna, þá flokkast þessi klárlega sem stórbruni.“

Jón Viðar Matthíasson slökkvliðsstjóri. Vísir/Stefán
Áhyggjufullum geymsluleigjendum var í gær ráðlagt að hafa sem fyrst samband við tryggingafélög sín. Engar tryggingar eru innifaldar í leiguverðinu hjá Geymslum en talsmaður Sjóvár sagði fjölskyldutryggingar almennt tryggja allt að 15 prósent af vátryggingarfjárhæð í brunatjónum utan heimilis. Brúnaþungir fulltrúar tryggingafélaganna voru fljótt komnir á vettvang í Miðhrauni í gærmorgun til að rýna í tjónið.

Fasteignafélagið Reginn, sem á stærstan hluta Miðhrauns 4, sendi tilkynningu til Kauphallar í gær þess efnis að húsið væri líklega ónýtt en hefði ekki áhrif á afkomu hins skráða félags. Kom fram að brunabótamat eignarhluta þess væri um 700 milljónir. Heildartjónið kann því að vera mikið og telur Jón Viðar húsið ónýtt.

Lagerhluti þess í miðrýminu sé gjörónýtur. Suðurhluti hússins, sem hýsti geymslur, og norðurhluti, sem var skrifstofa, séu þó ekki eins illa farin.

„Þegar svona stór hluti hússins er þetta illa farinn þá er heildin líklega ónýt. Húsið er á það slæmum stað að viðgerð myndi aldrei borga sig.“

Meðan slökkvistarf stendur enn yfir á margt eftir að koma í ljós, þar á meðal eldsupptök. Hjá þeim sem bíða fregna af afdrifum eigna sinna í geymslurýmum, kann mesta tjónið að vera tilfinningalegs eðlis og því seint metið til fjár. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×