Þá verður gripið til aðgerða á næstunni til að bæta afkomu bankans en eiginfjárstaða hans hefur verið neikvæð undanfarin misseri. Þetta kom fram í ræðu Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, sem ávarpaði viðstadda á ársfundi Seðlabanka Íslands, en fundurinn hófst klukkan 16 í húsakynnum bankans í dag.
Lokaskref í losun fjármagnshafta
Í ræðu sinni sagði Már það vera mat Seðlabankans að þó að fjármagnshöft hafi að langmestu leyti verið losuð í mars 2017, séu enn í gildi ákveðnar takmarkanir. Þessar takmarkanir þurfi að afnema. Þá séu nú efnahagslegar forsendur til að taka lokaskref í losun fjármagnshafta.„Það er mat Seðlabankans að efnahagslegar forsendur séu til að taka lokaskrefið í losun fjármagnshafta. Það á líka við um aflandskrónur en þær nema nú um 3½% af landsframleiðslu en voru rúm 40% eftir að fjármagnshöft voru fyrst sett á undir árslok 2008. Það verður hins vegar ekki gert nema með lagabreytingu,“ sagði Már.
Seðlabankinn telur þó að ekki séu enn forsendur til að hefja lækkun hinnar sérstöku bindiskyldu á fjármagnsinnstreymi á skuldabréfamarkað og í hávaxtainnstæður. Gangi spár hins vegar eftir munu aðstæður til að lækka bindiskylduna batna á komandi misserum.
Grípa til aðgerða til að bæta afkomu bankans
Framreikningar sem gerðir voru á síðasta ári bentu jafnframt til þess að afkoma Seðlabankans yrði neikvæð um 18 milljarða króna á ári, en Már sagði tapið nú hafa minnkað í 15 milljarða. Neikvætt eigið fé þýði þó ekki að seðlabankar standi frammi fyrir gjaldþroti.„Seðlabankar verða ekki gjaldþrota, að minnsta kosti ekki í hefðbundinni merkingu, þótt þeir hafi neikvætt eigið fé enda hafa margir virtir seðlabankar búið við það yfir lengri eða skemmri tíma,“ sagði Már. Eigi að síður geti það verið óheppilegt að Seðlabankinn verði með verulega neikvætt eigið fé.
„Á næstunni verður því gripið til margvíslegra aðgerða til að bæta afkomu bankans, þ.m.t. í gegnum óbeina þátttöku innlendra viðskiptabanka í kostnaði við forðann. Þá gæti komið til innköllunar hluta þess eigin fjár sem heimilt er að kalla inn frá ríkissjóði samkvæmt lögum,“ sagði Már í ræðu sinni.