Innlent

Slökkviliðsmaður borinn út úr brunanum í Miðhrauni

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Allt tiltækt lið slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu var kallað út í dag vegna stórbrunans í Miðhrauni.
Allt tiltækt lið slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu var kallað út í dag vegna stórbrunans í Miðhrauni. Vísir/Egill Aðalsteinsson
Slökkvilið hefur verið að störfum við gríðarlega erfiðar aðstæður frá því snemma í morgun vegna stórbruna í verslunar- og iðnaðarhúsnæði í Miðhrauni 4 í Garðabæ. Nokkrir slökkviliðsmenn hafa hlotið minniháttar meiðsl við störf á vettvangi í dag.

Um klukkan hálf ellefu í morgun þurfti að bera slökkviliðsmann út úr byggingunni þar sem hann fékk aðstoð félaga sinna, eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi. Slökkviliðsmaðurinn stóð mjög fljótt upp aftur og var ekki fluttur til aðhlynningar heldur var áfram að störfum á svæðinu. 

Flytja þurfti einn slökkviliðsmann á sjúkrahús með minniháttar meiðsl, sagði Rúnar Helgason varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu í samtali við Vísi í hádeginu. Það var gert snemma í morgun, fljótlega eftir að aðgerðir hófust á vettvangi. Á tólfta tímanum féll einn slökkviliðsmaður á milli hæða en slapp þó ómeiddur. 

Allt tiltækt lið slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu var kallað út í dag, líka þeir sem voru á frívakt. Einnig voru slökkviliðsmenn í þjálfun á vettvangi í Miðhrauni til að fylgjast með og læra. Slökkvilið Reykjavíkurflugvallar og hópur frá slökkviliðinu í Árborg mættu einnig á staðinn til að hjálpa. 

Erfiðlega gekk í byrjun að ráða niðurlögum eldsins en slökkvilið telur sig hafa náð tökum á eldinum. Vinna slökkviliðs snýst nú að mestu um að hreinsa til og slökkva í hreiðrum þar sem glæður geta leynst. Til þess er notast við aðstoðar krabba þar sem ekki er þorandi að senda slökkviliðsmenn inn. Í tilkynningu frá slökkviliðinu segir að reykmengun frá stórbrunanum sé að mestu gengin yfir en reykurinn er eitraður og talinn mjög skaðlegur. Allir sem eru að störfum á vettvangi og eru ekki í slökkviliðsbúnaði eru með grímur sem dreift var á staðnum. 

Fulltrúar Vísis eru á vettvangi og fylgjast með baráttu slökkviliðsins við eldinn í beinni textalýsingu og beinni útsendingu sem sjá má hér


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×