Innlent

Vill láta meta kosti og galla EES-samningsins

Höskuldur Kári Schram skrifar
Þrettán þingmenn úr þremur flokkum vilja láta gera úttekt á stöðu Íslands innan evrópska efnahagssvæðisins og leggja mat á kosti og galla EES-samningsins. Fyrsti flutningsmaður málsins segir að Evrópusambandið gangi nú í gegnum miklar breytingar sem kalli á umræðu hér á landi.

Gert er ráð fyrir því að utanríkisráðherra verði falið að gera skýrslu um málið og er þá vísað til skýrslu sem Norðmenn létu gera um EES-samninginn í byrjun þessa áratugar. Sú skýrsla vakti mikla athygli en helstu niðurstöðu hennar voru að EES samningurinn hafi falið í sér meira framsal á fullveldi en innganga í Evrópusambandið. Samningurinn hafi þó haft jákvæð áhrif á norskt efnahagslíf.

Það er Ólafur Ísleifsson þingmaður Flokks fólksins sem óskar eftir skýrslunni en með honum eru flokkssystkini hans og þingmenn úr Miðflokki og Sjálfstæðisflokki. Ólafur segir eðlilegt að Íslendingar leggi mat á stöðuna þar sem um mikla hagsmuni sé að ræða.

„Evrópumálin eru á fleygiferð eins og allir þekkja. Við sjáum Brexit, við sjáum að núna er komið upp stórmál varðandi raforkumálin á vettvangi Evrópusambandsins. Norðmenn þekkja það mjög vel og síðan mætti áfram telja,“ segir Ólafur.

Hann segir að ESS-samningurinn hafi markað tímamót hér á landi og í megindráttum haft jákvæð áhrif.

„En það þýðir ekki það að við eigum ekki að vega og meta árangurinn af þessu starfi. Meta kosti og galla eins og það er orðað ekki síst með tilliti til framtíðar. Ég ítreka og undirstrika þá miklu hagsmuni sem við eigum að gæta gagnvart Evrópu þannig að ég tel að þessi tillaga sé ákaflega tímabær,“ segir Ólafur 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×