Pruitt, sem hefur lengi verið áberandi afneitari loftslagsvísinda, hefur gengið hart fram við að afnema reglur sem eiga að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og vernda loft og vatn í Bandaríkjunum fyrir eiturefnum. Nú síðast í gær tilkynnti hann um að Umhverfisstofnunin (EPA) ætlaði að afnema reglugerð frá tíð Baracks Obama, fyrrverandi forseta, sem hefði tvöfaldað sparneytni bifreiða fyrir árið 2025.
Svo vel hefur Pruitt gengið að hann hefur jafnvel verið orðaður við embætti dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Trump þegar og ef forsetinn rekur Jeff Sessions sem hann hefur lengi níðst á opinberlega og á bak við luktar dyr.
Nú er framtíð Pruitt hins vegar óráðin eftir röð hneykslismála sem eru sögð hafa reynt á þolinmæði Hvíta hússins með þessum annars dygga þjóni Trump. Verði Pruitt rekinn yrði hann enn einn embættismaðurinn sem hverfur úr stjórn Trump á skömmum tíma.
Dýr ferðalög og náin tengsl við hagsmunaaðila
Skipan Pruitt sem forstjóri EPA var umdeild á sínum tíma. Þegar hann var dómsmálaráðherra Oklahoma-ríkis stóð hann í fjölda dómsmála til að gera EPA afturreka með reglugerðir, oft í samkurli við olíuiðnaðinn. Hann hefur ítrekað véfengt að menn beri ábyrgð á loftslagsbreytingum, þvert á vísindalega þekkingu á orsökum þeirra. Undir hans stjórn voru vísanir í loftslagsbreytingar markvisst fjarlægðar af vefsíðu stofnunarinnar.Eftir að hann tók við hefur hann raðað fyrrverandi málafylgjumönnum fyrir iðnaðinn sem EPA á að hafa eftirlit með í pólitískar stöður hjá stofnuninni.
Þá hefur Pruitt verið gjarn á að fljúga með einkaflugvélum eða á fyrsta farrými og gista á lúxushótelum. Bar hann meðal annars fyrir sig öryggissjónarmið til að réttlæta að hann þyrfti að fljúga á fyrsta farrými. Ferðir Pruitt hafa einnig kostað bandaríska skattgreiðendur skildinginn vegna teymis öryggisvarða sem hann ferðast með öllum stundum.
Á meðal ferða Pruitt var ein til Marokkó sem hafði þann eina tilgang að tala fyrir útflutningi á jarðgasi frá Bandaríkjunum, nokkuð sem væri alla jafna ekki í verkahring forstjóra Umhverfisstofnunarinnar.
Þá vakti athygli að á meðal fyrstu verka Pruitt var að láta koma fyrir hljóðeinangruðum klefa á skrifstofu sinni í höfuðstöðvum EPA sem kostaði tugi þúsunda dollara. Nú síðast bárust fregnir af því að Pruitt hefðu gefið nánustu aðstoðarmönnum sínum vænar launahækkanir þrátt fyrir að Hvíta húsið hefði hafnað því að leyfa honum það.

Leigði af lobbíista á vildarkjörum
Nýjasta hneykslismál Pruitt gæti einnig reynst það afdrifaríkasta. Fréttastofa ABC-sjónvarpsstöðvarinnar ljóstraði þannig upp um sérstakan húsaleigusamning sem Pruitt gerði við vin sinn fyrstu mánuðina eftir að hann flutti til Washington-borgar.Pruitt bjó þá í blokkaríbúð nærri bandaríska þinghúsinu sem er í hlutaeigu eiginkonu málafylgjumanns sem ver hagsmuni fjölda orkufyrirtækja sem eru háð eftirliti Umhverfisstofnunarinnar. Naut Pruitt sérkjara þar sem hann greiddi ekki aðeins langt undir markaðsleigu heldur fékk hann að greiða aðeins fyrir þær nætur sem hann dvaldi í íbúðinni.
Politico segir að John Kelly, starfsmannastjóri Hvíta hússins, hafi íhugað að sparka Pruitt, jafnvel áður en nýjasta málið kom upp. Á endanum hafi Kelly hins vegar ákveðið að bíða eftir skýrslu innra eftirlits EPA um ferðakostnað forstjórans.
Árangur Pruitt í að ná fram markmiðum Trump um að fækka umhverfisreglugerðum gætu hins vegar bjargað starfi hans.
Fólksflótti úr stjórninni
Fjöldi ráðherra og embættismanna í Hvíta húsinu hafa horfið á braut síðustu vikur og mánuði. Í síðasta mánuði rak Trump Rex Tillerson, utanríkisráðherra sinn, H.R. McMaster, þjóðaröryggisráðgjafa sinn og David Shulkin, ráðherra málefna uppgjafarhermanna. Shulkin hafði glímt við eigin hneykslismál sem varðaði ferðakostnað.Auk þeirra sögðu Hope Hick, samskiptastjóri Hvíta hússins og einn nánasti trúnaðarmaður Trump, og Gary Cohn, efnahagsráðgjafi forsetans upp störfum.
Áður hafði Trump losað sig við Steve Bannon, aðalráðgjafa sinn, Michael Flynn, fyrsta þjóðaröryggisráðgjafa sinn, Reince Priebus, fyrsta starfsmannastjóra Hvíta hússins í tíð Trump, Tom Price, heilbrigðisráðherra, og Anthony Scaramucci, samskiptastjóra Hvíta hússins, svo einhverjir séu nefndir.
Þá eru ónefndir bæði forstjóri og aðstoðarforstjóri alríkislögreglunnar FBI. Rannsókn Roberts Mueller, sérstaks rannsakanda dómsmálaráðuneytisins, beinist meðal annars að því hvort að Trump hafi reynt að hindra framgang rannsóknar FBI á mögulegu samráði framboðs hans við Rússa með því að reka James Comey, forstjóra FBI, í fyrra.