Erlent

Rannsóknarnefnd gagnrýnir Tesla vegna banaslyss

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Ætlast er til þess að ökumenn Tesla-bíla séu með hendur á stýri jafnvel þó að sjálfstýringin sé í gangi.
Ætlast er til þess að ökumenn Tesla-bíla séu með hendur á stýri jafnvel þó að sjálfstýringin sé í gangi. Vísir/AFP
Rannsóknarnefnd samgönguslysa í Bandaríkjunum er ósátt við vinnubrögð bílaframleiðandans TESLA í kjölfar banaslyss þann 23. mars síðastliðinn, þar sem Tesla-jepplingur ók á vegatálma með þeim afleiðingum að Walter Huang, tveggja barna faðir á fertugsaldri, lést. Hefur nefndin gert athugasemdir við yfirlýsingu fyrirtækisins um tildrög slyssins.

Tesla sendi frá sér tilkynningu á föstudag þar sem kom fram að sjálfstýrikerfi bílsins hafi verið í notkun þegar slysið átti sér stað. Þá sagði fyrirtækið að ökumaðurinn sem lést hafi borið nokkra sök, til að mynda hafi hann ekki verið með hendur á stýri rétt fyrir áreksturinn þó að bíllinn hafi gefið frá sér viðvaranir um að öruggast væri að hafa hendur á stýri.

Þá sagði einnig að öryggistálminn sem bíllinn klessti á hafi orðið fyrir höggi í öðrum árekstri og því hafi hann ekki dreift högginu sem skyldi þegar bíll Huang lenti á tálmanum.

„Á þessum tíma þarf rannsóknarnefnd samgönguslysa aðstoð Tesla við að lesa gögn úr bílnum,“ segir í yfirlýsingu frá Chris O‘Neil, talsmanni nefndarinnar.

„Í öllum rannsóknum okkar þar sem Tesla bíll kemur við sögu hefur fyrirtækið verið afar samvinnuþýtt við að lesa gögn. Nefndin er hins vegar ósátt við að Tesla hafi gefið út upplýsingar sem eru til rannsóknar.“

Það þykir óvanalegt að nefndin gefi út yfirlýsingu af þessu tagi en hún hefur hins vegar gripið til aðgerða þegar flugfélög og flugvélaframleiðendur hafa birt upplýsingar sem nefndarmenn telja ótímabært að gera opinberar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×