Innlent

Óttast að strokufanginn reyni að komast úr landi

Birgir Olgeirsson skrifar
Fangelsið Sogni er staðsett í Ölfusi, skammt frá Hveragerði.
Fangelsið Sogni er staðsett í Ölfusi, skammt frá Hveragerði. vísir
Fanginn sem strauk af Sogni í nótt er enn ófundinn að sögn Gunnars Schram, yfirlögregluþjóns á Suðurnesjum.

„Það er ekki vitað hvort hann sé farinn úr landi en það er óttast að hann komi sér úr landi,“ segir Gunnar í samtali við Vísi.

Fanginn heitir Sindri Þór Stefánsson en hann hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 2. febrúar 2018 vegna rannsóknar lögreglu á umfangsmiklum þjófnaði á tölvubúnaði.

Sindri er íþróttamannslega vaxinn með skolleitt hár, skegghýjung og 192 cm á hæð. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum strauk Sindri frá Sogni kl. 01:00.

Lögreglan lýsir eftir Sindra Þór Stefánssyni.
Allir þeir sem geta veitt upplýsingar um ferðir Sindra frá því kl. 01:00 í nótt er beðnir um að koma þeim upplýsingum á framfæri við lögregluna.

Sogn er staðsett í Ölfusi, rétt hjá Hveragerði, en Gunnar segir nokkurn tíma hafa liðið frá því að Sindri strauk og þar til það uppgötvaðist. Sindri hefur því geta komist ansi langt á þeim tíma sem liðinn er frá því hann strauk, sérstaklega ef hann hefur komist í bíl.

„Hann hefur brotaferil en ekki talinn hættulegur sem slíkur,“ segir Gunnar um Sindri.

Sogn er opið fangelsi en Páll Winkel fangelsismálastjóri sagði í samtali við Vísi í morgun að algengt sé að gæsluvarðhaldsfangar séu geymdir í opnum fangelsum líkt og Sogni eða Kvíabryggju ef þeir eru ekki taldir hættulegir. Þeim sé treyst fyrir því að strjúka ekki og kemur það verst niður á þeim sjálfum varðandi afplánun ef þeir gera það. 

Lögreglan lýsti eftir Sindra í morgun en Gunnar Schram segir lögreglu ekki hafa borist ábendingar enn sem komið er um ferðir Sindra. Lögreglan á Suðurnesjum er í samskiptum við öll embætti á landinu og eru flestir starfsmenn embættisins á Suðurnesjum að vinna í þessu máli.


Tengdar fréttir

Lögreglan lýsir eftir strokufanga

Hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 2. febrúar 2018 vegna rannsóknar lögreglunnar á umfangsmiklum þjófnaði á tölvubúnaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×