Innlent

Þvoglumæltur ökumaður taldi lögreglu hafa viljað stöðva einhvern annan

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast um helgina. Hún þurfti margsinnis að stöðva ökumenn sem grunaðir eru um að hafa ekið undir áhrifum áfengis.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast um helgina. Hún þurfti margsinnis að stöðva ökumenn sem grunaðir eru um að hafa ekið undir áhrifum áfengis. Vísir/Vilhelm
Í gærkvöldi gáfu lögreglumenn ökumanni fyrst merki um að hann skyldi stöðva bifreið sína á Reykjanesbraut með bláum neyðarljósum en ökumaðurinn stöðvaði ekki bifreiðina fyrr en hann var kominn við Flatahraun.

Lögregla spurði ökumann, sem að sögn lögreglu var „áberandi ölvaður og þvoglumæltur,“ hvers vegna hann hefði ekki stöðvað fyrr. Ökumaðurinn sagðist þá hafa talið hana viljað stöðva einhvern annan en sig. Ökumaðurinn er sem fyrr segir grunaður um ölvun við akstur.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en hún hafði í nógu að snúast um helgina.

Múrsteini kastað í rúðu

Það var í gærkvöldi klukkan hálf tólf sem tilkynnt var um innbrot í húsnæði við Hvassaleiti. Múrsteini hafði verið kastað í rúðu, hurð var spennt upp og lögregla telur mögulegt að einhver gæti hafa farið inn í húsið en ekki er vitað hvort einhverju hafi verið stolið.

Eins var tilkynnt á sjöunda tímanum í gærkvöldi um innbrot og þjófnað við Bygggarða. Rúða var brotin og verkfæri og fleiri munir voru teknir ófrjálsri hendi.

Skipti um sæti við farþega

Klukkan 02:35 var bifreið stöðvuð á Reynisvatnsvegi og þegar bifreiðin stöðvaðist sáu lögreglumenn að ökumaðurinn skipti um sæti við farþega. Ökumaðurinn var fyrir vikið sviptur ökuréttindum og í ljós kom að lögregla hefur ítrekað þurft að stöðva hann og svipta hann ökuréttindum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×