Innlent

Segist hafa verið sviptur frelsi og barinn með verkfærum af manni á reynslulausn

Kjartan Kjartansson skrifar
Kærandinn greindi frá árásinni og frelsissviptingunni á lögreglustöðinni á Selfossi á mánudag.
Kærandinn greindi frá árásinni og frelsissviptingunni á lögreglustöðinni á Selfossi á mánudag. Vísir/Vilhelm
Karlmaður á þrítugsaldri hefur lagt fram kæru á hendur öðrum manni á sama aldri vegna líkamsárásar og frelsissviptingar. Kærandinn heldur því fram að maðurinn hafi hafi haldið sér í sumarbústað og bíl og barið sig með skiptilykli og kylfu. Árásarmaðurinn var á reynslulausn og hefur verið gert að ljúka afplánun sinni í fangelsi.

Í frétt á vef lögreglunnar kemur fram að kærandinn hafi komið á lögreglustöðina á Selfossi á mánudag. Barsmíðarnar eiga að hafa átt sér stað í sumarbústað í Árnessýslu og í bíl viðkomandi.

Maðurinn sem er sakaður um að hafa haldið hinum og beitt hann ofbeldi var handtekinn á þriðjudag í sumarbústaðnum. Hann er sagður hafa „kannast við“ málið við yfirheyrslur hjá lögreglu.

Í ljós hafi komið að meintur gerandi hafi verið á reynslulausn. Meint brot hans voru talin rof á þeirri reynslulausn. Lögregla krafðist því að hann skyldi ljúka afplánun sinni. Dómari við Héraðsdóm Suðurlands féllst á þá kröfu. Maðurinn er því sagður kominn til afplánunar í fangelsi á ný.

Lögreglan segir að bústaðurinn og bifreið sem hald hafi verið lagt á í Reykjavík hafi verið rannsökuð sem mögulegir brottavettvangar.Tæknideild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var fengin til að aðstoða við tæknirannsókn á vettvöngunum tveimur.

Árásarmaðurinn á að hafa notað skiptilykilinn og kylfu og hótað fórnarlambinu frekari barsmíðum. Frelsissvipting á að hafa átt sér stað í síðustu viku og hafa staðið yfir í einhverjar klukkustundir.

Kærandinn er sagður hafa leitað til læknis vegna málsins til að fá gert að áverkum sem hann bar á líkamanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×